Sveitarstjórn

6. fundur 03. september 2002 kl. 13:00

6. fundur hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps var haldinn þriðjudaginn 3. september 2002 klukkan 13:00 í Árnesi.

 

Mættir voru hreppsnefndarmennirnir Már Haraldsson oddviti,  Aðalsteinn Guðmundsson, Hrafnhildur Ágústsdóttir, Gunnar Örn Marteinsson, Þrándur Ingvarsson, Ólafur F. Leifsson og Matthildur Vilhjálmsdóttir, einnig Ingunn Guðmundsdóttir sveitarstjóri sem skráði fundargerð.

 

Dagskrá:

1.      Fundargerð hreppsráðs frá 27. ágúst 2002.  Umræður og afgreiðslur:

Liður 2, samþykkt að greiða fyrir akstur með Fjölbrautaskólanemendur frá Árnesi að Sandlækjarholti.  Sveitarstjóra falið að leita eftir þátttöku skólans í kostnaði.  Jafnframt áréttar hreppsnefnd nauðsyn þess að jafna aðstöðu nemenda í uppsveitum Árnessýslu varðandi skólaakstur.

Liður 4. samþykkt um stjórn og fundasköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps.  Sveitarstjóri lagði fram nýja útgáfu af grein 57.  Samþykkt að vísa samþykktinni til síðari umræðu.

Liður 11c, gjaldskrá fyrir skólaakstur, tillaga að 3% hækkun frá fyrra ári samþykkt.

Liður 11f, mötuneytismál, tillaga hreppsráðs um ráðningu skólaliða í 50% starf samþykkt.  Einnig samþykkt að starfsmenn sveitarfélagsins greiði sama gjald fyrir hádegismat og nemendur.  Samþykkt að fela sveitarstjóra að leggja fram samanburð á kostnaði við mötuneyti skólanna.

2.      Fundargerð fræðslunefndar Hrunamannahrepps frá 20. ágúst 2002.

Lögð fram.

3.      Fundargerðir til kynningar:

a.       Stjórn Sorpstöðvar Suðurlands frá 20. ágúst 2002.

b.      Heilbrigðisnefnd Suðurlands frá 20. ágúst 2002.

Lagðar fram til kynningar.

4.      Trúnaðarmál, fært í trúnaðarbók.

5.      Tillaga að fyrirkomulagi innheimtu vanskilaskulda.

Frestað til næsta fundar.

6.      Fundarboð aukafundar Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands.

Samþykkt að fela Ingunni Guðmundsdóttur umboð til að sitja fundinn, varamaður Hrafnhildur Ágústsdóttir.

7.      Erindi frá Landbúnaðarráðuneytinu varðandi reglugerð um búfjáreftirlitssvæði og framkvæmd eftirlits dags. 22 ágúst 2002.

Lagt fram.

8.      Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dags. 22. ágúst 2002 þar sem kynntar eru tillögur að breytingum á lögum Sambandsins.

Umfjöllun frestað til næsta fundar.

9.      Erindi frá Samtökum herstöðvaandstæðinga dags 21. ágúst 2002 með ósk um þátttöku í afvopnunarátaki með friðlýsingu svæðisins.

Samþykkt.

10.  Bréf frá Landsvirkjun dags. 19. ágúst 2002 varðandi samstarfsverkefni sumarsins.

Lagt fram.

11.  Erindi frá Félagsmálaráðuneytinu dags 20 ágúst 2002 þar sem kynnt er skýrsla nefndar um félagsleg húsnæðismál sveitarfélaga.

Lagt fram.

12.  Boðun Skipulagsþings sem haldið verður í Reykjavík dagana 8.-9. nóvember 2002. 

Lagt fram.

13.  Fulltrúar Landsvirkjunar þeir Albert Guðmundsson, Guðlaugur Þórarinsson, Guðmundur Hagalín og Þráinn Hauksson komu á fundinn og kynntu áform um virkjanir í neðri Þjórsá og helstu umhverfisáhrif þeirra.

14.  Skipulagsráðgjafar sveitarfélagsins kynntu fyrirliggjandi drög að aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps og hugmyndir um framhaldsvinnu við það. 

Þráinn Hauksson lýsti drögum fyrir Gnúpverjahrepp, fram kom í máli hans að kortavinna væri langt komin bæði fyrir afrétt og byggð.  Eitthvað vantaði uppá vinnu við greinargerð. 

Oddur Hermannsson, og Pétur H. Jónsson gerðu grein fyrir aðalskipulagstillögu vegna Skeiðahrepps.  Og afhentu fundarmönnum samantekt um vinnuna. 

Samþykkt að fela hönnuðum áframhaldandi vinnu við skipulagið og samþættingu milli hinna sameinuðu sveitarfélaga.  Gert er ráð fyrir að hreppsnefnd taki málið aftur fyrir á reglulegum fundi í desember. 

15.  Önnur mál.

a.       Sigurður Sigurjónsson lögmaður og Oddur Hermannsson kynntu athuganir sínar á stöðu Skeiða- og Gnúpverjahrepps gagnvart kæru á úrskurði Skipulagsstofnunar ríkisins varðandi Norðlingaölduveitu.  Umræður urðu allnokkrar. Þrándur mótmælti því að um málið væri fjallað á fundi án þess að það væri formlega boðað í fundarboði.  Samþykkt að boða til aukafundar hreppsnefndar þann 16. september til að taka ákvörðun í málinu.

b.      Erindi frá lögmönnum varðandi málshöfðunarfresti vegna úrskurðar óbyggðanefndar í þjóðlendumáli, dagsett 25. ágúst 2002. 

Samþykkt að fela sveitarstjóra að kanna fyrirætlanir um nærliggjandi sveitarfélaga um málið og réttarstöðu Skeiða- og Gnúpverjahrepps fyrir 16. september 2002.

 

 

Fundi slitið kl.  19:10