Sveitarstjórn

31. fundur 20. janúar 2004 kl. 10:30

31. fundur hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps var haldinn þriðjudaginn 20. janúar 2004  í Árnesi kl. 10:30.

Fundinn sátu Aðalsteinn Guðmundsson, Hrafnhildur Ágústsdóttir, Gunnar Örn Marteinsson, Þrándur Ingvarsson, Ólafur F. Leifsson, Matthildur E. Vilhjálmsdóttir, Tryggvi Steinarsson og Ingunn Guðmundsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

Dagskrá:

1.     Fundargerðir til staðfestingar
a)      Hreppsráðs frá 13. janúar 2004

Fundargerðin staðfest

2.     Fjárhagsáætlun 2004 – síðari umræða
Fyrir lá tillaga að fjárhagsáætlun til síðari umræðu, enn fremur breytingartillaga frá oddvita og sveitarstjóra fskj.1.  Sveitarstjóri kynnti og lagði fram greinargerð með fjárhagsáætlun fskj.2.   Samþykkt var bókun um að framlag sem veitt er til Bláhimins kr. 250 þúsund er skilyrt því að hreppurinn sé þar með laus frá skuldbindingum vegna starfseminnar.  Samþykktar viðbótartillögur, kr. 500 þús. til að gera leiksvið í Brautarholti og kr. 1.500 þús. til að koma upp lýsingu í hverfinu í Árnesi og nýrri götu í Brautarholti.

Lögð var fram fundargerð umhverfisnefndar með umsögn um fjárhagsáætlun breytingartillaga þeirra var samþykkt.  Hreppsnefnd samþykkti að vísa umræðu nefndarinnar um sorpmál til áframhaldandi vinnslu,  fundargerðin að öðru leyti staðfest.

Bókun framfarasinna vegna fjárhagsáætlunar:

§         Tilraun verði gerð með að auglýsa skálann í Hólaskógi til sölu og látið reyna á hvort viðunandi verð fáist.  Sama á við um einbýlishús í eigu hreppsins.

§         Skoðað verði hvort hlutur hreppsins í Límtré gæti verið betur kominn í atvinnuuppbyggingu innan sveitar.

§         Brunavarnir innan hreppsins verði á einni hendi.

§         Leitað verði allra leiða til að lækka kostnað við sorphirðu (útboð – fækka gámum).

§         Farið verði í að markaðsetja lóðir í eigu hreppsins, í Brautarholti – Árnesi og lóðir niður við Kálfá.  Gert verði út á t.d. internet – hraðtengingu og aðgengilegar iðnaðarlóðir.

§         Minna má á ófullgerðar götur og lýsingu í Árnesi og nauðsyn þess að klára heimreið og plan við Brautarholtsskóla og sundlaug.

§         Gert verði ráð fyrir framlagi vegna verkefnisins “Gæði og gestrisni”.  Má þar minna á “Gestastofu – Landnámsdag”, “Sveitasælu á Skeiðum” svo og verkefnið “Saga lands”.

§         Gert verði ráð fyrir framlagi vegna viðhalds fasteigna og stuðst við ástandsskoðun V.G.S.

§         Í framhaldi af áður samþykktri tillögu varðandi utanaðkomandi úttekt á skólahaldi er lagt til að samtímis fari fram úttekt á leikskólum í sveitarfélaginu.  Þá verði skoðað það húsnæði sem hreppurinn hefur yfir að ráða með tilliti til skóla – leikskóla og yfirstjórnar sveitarfélagsins.

Tillaga að fjárhagsáætlun borin upp með breytingum og samþykkt með fimm atkvæðum, meirihluta og Ólafs F. Leifssonar, Gunnar Örn og Þrándur sátu hjá.

3.     Sameiginleg skipulagsnefnd uppsveita Árnessýslu – tillaga oddvitafundar frá      4. desember til umræðu og afgreiðslu.  Rifjuð var upp tillaga minnihluta sem bókuð var í síðustu fundargerð hreppsnefndar.  Samþykkt með fjórum atkvæðum meirihluta að stofna sameiginlega skipulagsnefnd uppsveita þrír fulltrúar minnihluta voru á móti.
4.     Tillaga um afslátt aldraðra af fasteignaskatti 2004 á grundvelli heimildar í lögum um tekjustofna sveitarfélaga fskj.3. Samþykkt samhljóða
5.     Erindi frá lánasjóði sveitarfélaga dags. 7. janúar 2004 þar sem kynntur er umsóknarfrestur.  Lagt fram.
6.     Uppdráttur af skiptingu Efri Brúnavalla í tengslum við sölu sbr. hreppsnefndarfund 2. desember s.l. þar sem fallið var frá forkaupsrétti.  Farið er framá staðfestingu hreppsnefndar á þessari skiptingu.  Hreppsnefnd gerir ekki athugasemdir við skiptinguna.
7.     Erindi barst símleiðis frá Bjarna Birgissyni og Láru B. Jónsdóttur þess efnis að þau hyggðust sækja um lögbýlisrétt á eign sinni að Blesastöðum 2a.  Kaup þeirra á eigninni voru kynnt á fundi hreppsnefndar þann 27. júlí 2003 þar sem fallið var frá forkaupsrétti.
Hreppsnefnd gerir ekki athugasemdir við umsókn um lögbýlisrétt.

8.     Önnur mál
a)      Kynnt var erindi frá Umhverfisstofnun varðandi framlag til minka og refaeyðingar.  Þar kemur fram að í stað þess að greiða 50% til móts við sveitarfélagið verður framlag einungis 30%.  Af því tilefni gerði hreppsnefnd eftirfarandi samþykkt.

“Hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps mótmælir skerðingu framlaga ríkisins til minka og refa eyðingar úr 50 í 30 %.  Með skerðingunni sendir umhverfisráðuneytið mótsagnarkennd skilaboð til sveitarfélaga, því er annarsvegar lýst yfir að gert verði átak í eyðingu minka og refa um leið og framlög til verkefnisins eru skert.  Sveitarfélög geta ekki unað því að ríkisvaldið skerði einhliða og ítrekað þau framlög sem eiga að standa undir sameiginlegum verkefnum og sveitarfélögin látin sitja uppi með kostnaðarhlut ríkisins.  Til að mæta þessum skaða samþykkri hreppsnefnd að á yfirstandandi veiðitímabili verði einungis greitt fyrir skott til þeirra sem samið hefur verið við um eyðingu minka og refa.,,

Sveitarstjóra falið að koma samþykktinni á framfæri við umhverfisráðherra og þingmenn kjördæmisins.

b)      Samþykkt að fela sveitarstjóra að ræða við Brunavarnir Árnessýslu um möguleika á samstarfi.

c)      Opnunartími Skeiðalaugar.  Samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum Skeiðalaugar er mjög dræm aðsókn á laugardögum og vart réttlætanlegt að halda opnu.  Samþykkt að loka á laugardögum fram til páska. 

d)      Borist hafði tilboð í sumarhúsið í Brautarholti dags. 16. janúar 2003, samþykkt að hafna tilboðinu.

e)      Samþykkt að halda almennan hreppsfund um fjármál og fleira mánudagskvöldið 16. febrúar n.k.

 

 

Fundi slitið klukkan 14:35