Sveitarstjórn

50. fundur 08. mars 2005 kl. 10:30

50. fundur var haldinn í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps þriðjudaginn 8. mars  kl. 10:30 í Árnesi.

Mættir voru Aðalsteinn Guðmundsson, Tryggvi Steinarsson, Hrafnhildur Ágústsdóttir, Matthildur E Vilhjálmsdóttir, Þrándur Ingvarsson, Gunnar Örn Marteinsson, Ólafur Fr. Leifsson, Ingunn Guðmundsdóttir og Þuríður Jónsdóttir sem ritaði fundargerð á tölvu.

 

Dagskrá:

1.     Fundargerðir til staðfestingar
        a,  Hreppsráðs frá 22. febrúar
        b.  Skólanefndar frá 15. og 26. febrúar.
        c.  Byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 22. febrúar
Varðandi fundargerð skólanefndar var sérstaklega fjallað um sameiningu Þjórsárskóla á einn stað. Lögð var fram umsögn foreldraráðs Þjórsárskóla um málið.Allir hreppsnefndarmenn tóku til máls. Tvær tillögur voru til umræðu. Tillaga A. Hreppsnefnd samþykkir að sameina starfsemi Þjórsárskóla á einn stað.

Haustið 2002 voru 70 nemendur í Brautarholts- og Gnúpverjaskóla eða 29 nemendur í Brautarholtsskóla og 39 í Gnúpverjaskóla .  Á yfirstandandi skólaári eru nemendur 64. Áætlaður nemendafjöldi haustið 2005 er 54 og horfur á enn frekari fækkun á næstu árum eða niður í 41 árið 2009.  Í hverjum árgangi eru nú 3 til 13 börn.

Rannsóknarstofnun KHÍ er ákveðið þeirrar skoðunar að skólastarfinu sé betur borgið á einum stað en tveimur.  Því til stuðnings er nefnd bæði fagleg hagræðing og veruleg fjárhagsleg hagræðing. Könnun KHÍ meðal foreldra gefur þá niðurstöðu að foreldrar telja langflestir að skólastarfið ætti að sameina á einn stað og telja það megin veikleika skólans að hann skuli vera á tveimur stöðum.

Hreppsnefnd samþykkir að Þjórsárskóli verði í Árnesi.

Skólahúsið í Árnesi getur tekið við nemendum næsta haust án mikilla tilfæringa innan húss.  Þar er mun rýmra almennt kennsluhúsnæði.   Í Brautarholti þyrfti hinsvegar að notast við lausar kennslustofur til að koma starfseminni fyrir.

Tillaga B. Breytingartillaga Matthildar. Hreppsnefnd samþykkir að sameina starfsemi Þjórsárskóla á einn stað.

Haustið 2002 voru 70 nemendur í Brautarholts- og Gnúpverjaskóla eða 29 nemendur í Brautarholtsskóla og 39 í Gnúpverjaskóla .  Á yfirstandandi skólaári eru nemendur 64. Áætlaður nemendafjöldi haustið 2005 er 54 og horfur á enn frekari fækkun á næstu árum eða niður í 41 árið 2009.  Í hverjum árgangi eru nú 3 til 13 börn.

Rannsóknarstofnun KHÍ er ákveðið þeirrar skoðunar að skólastarfinu sé betur borgið á einum stað en tveimur.  Því til stuðnings er nefnd bæði fagleg hagræðing og veruleg fjárhagsleg hagræðing. Könnun KHÍ meðal foreldra gefur þá niðurstöðu að foreldrar telja langflestir að skólastarfið ætti að sameina á einn stað og telja það megin veikleika skólans að hann skuli vera á tveimur stöðum.

Þar sem áðurnefnd úttekt tekur ekki á rauntölum við endurbætur sem fylgir því að koma starfseminni undir eitt þak og til að sem víðtækust sátt náist um málið samþykkir hreppsnefnd að fela arkitekt að meta hvort skólahúsið henti betur fyrir starfsemi Þjórsárskóla.  Lagt verði mat á hvort gera þurfi breytingar á húsnæðinu og áætlaðan kostnað við þær.

Hreppsnefnd samþykkir enn fremur að fela sveitarstjóra í samstarfi við endurskoðendur hreppsins að meta rekstrarkostnað Þjórsárskóla annarsvegar í Árnesi og hinsvegar í Brautarholti.

Niðurstöður þessara athugana liggi fyrir í lok mars og ákvörðun um staðsetningu verði tekin á næsta hreppsnefndarfundi 5. apríl.

Oddviti bar upp tllögu a og var hún samþykkt með 5 atkvæðum, 2 voru á móti Matthildur og Ólafur.

Matthildur lagði fram eftirfarandi bókun. “ Þar sem sú ákvörðun hefur verið tekin að starfsemi grunnskólans í Skeiða- og Gnúpverjarheppi verði í Árnesi vil ég vekja athygli á eftirfarandi atriðum. Með því að leggja niður kennslu í Brautarholti er nokkuð ljóst að nýta þarf það hús á einhvern hátt. Þegar að þeirri skipulagningu verður unnið er okkur skylt að tryggja og setja í forgang að nemendur Leikholts hafi áfram aðgang að mötuneyti þar, tölvum, sal og íþróttaáhöldum. Rétt er að árétta að leikskólinn Leikholt var beinlínis byggður  á  þessum stað, þ.e. í þessari nálægð við skólahúsið, með hagræðingu og sparnað að leiðarljósi með því að samnýta áðurnefnda þætti sem og opið útivistarsvæði sem nú þegar þarfnast mikillar lagfæringar og hreinlega endurnýjunar. Einnig er það mjög mikilvægt að það góða samstarf, sem verið hefur á milli leik- og grunnskólans undanfarin ár, verði ekki rýrt eða vanmetið á nokkurn hátt þegar að endurskipulagningu kemur.”

Aðrir hreppsnefndarmenn tóku undir bókunina.

Hreppsnefnd samþykkti að skipa vinnuhóp um framtíð skólahúsnæðis í Brautarholti. Skipaðir voru Gunnar Örn Marteinsson, Aðalsteinn Guðmundsson og Matthildur E Vilhjálmsdóttir, Aðalsteini falið að kalla hópinn saman til fyrsta fundar.

Fundargerðirnar staðfestar með framkomnum breytingum.

 

2.     Fundargerðir til kynningar
Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 15. febrúar
Stjórn SASS frá 17. febrúar
Fundargerðirnar lagðar fram.

3.     Aðalfundarboð frá Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands og Eignarhaldsfélags Suðurlands ehf  miðvikudaginn 16. mars n.k. Samþykkt að fela Gunnari Erni Marteinssyni að sitja fundina.
4.     Ályktun til sveitarfélaga frá þingi Iðnnemasambands Íslands um dagvistun barna.
Lagt fram.

5.     Erindi frá skipulags- og byggingarfulltrúa Ásahrepps dags. 17. febrúar varðandi breytingu á Aðalskipulagi Ásahrepps.
Lagt fram. Engar athugasemdir gerðar.

6.     Erindi frá Karlakór Hreppamanna dags. 8. febrúar með ósk um fjárstuðning vegna kaupa á söngpöllum. Samþykkt kr. 50.000,-
7.     Drög að samningi um land undir kirkjugarð á Stóra-Núpi. Samþykkt.
8.     Boðun landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga 18. mars. Lagt fram.
9.   Erindi frá Jóni Eiríkssyni um nýjan veg að Kletti. Vísað til vinnslu aðalskipulags.
10.   Fundargerð til staðfestingar frá Skipulagsfulltrúa frá 24.febrúar 2005.
11.   Samþykkt að fara fram á að skipulagsfulltrúi sendi uppdrætti sem varða Skeiða- og Gnúpverjahrepp með fundargerð. Tillaga að landnýtingar og landbótaáætlun fyrir Gnúpverjaafrétt 2005-2009.Samþykkt.

12.   Önnur mál.
a.   Aðalsteinn sagði frá fyrirspurn aðila sem vill fá afréttarhús til afnota samþykkt að leita frekari upplýsinga og vísa málinu til afréttamálanefndar.
b.   Erindi frá Skipulagsstofnun, námskeið um skipulagsmál sveitarfélaga.
c.   Erindi frá Grétari Halldórssyni dags. 7.mars sl., varðar sölu á spildu úr jörðinni Austurhlíð. Hreppsnefnd tekur jákvætt í hugmyndina, en tekur ekki formlega afstöðu fyrr en lóðablað hefur verið staðfest af skipulagsnefnd.
d.   Starfsmannamál. Bókað í trúnaðarbók.
e.   Ingunn sagði frá ferð til norðurlandanna með oddvitum , sveitarstjórum og sameiginlegum starfsmönnum uppsveitanna. Sameiginlegir starfsmenn uppsveitanna munu taka saman skýrslu um ferðina.
 

Fundi slitið kl. 14.00