Sveitarstjórn

11. fundur 11. janúar 2011 kl. 13:00

11. fundur haldinn í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps þriðjudaginn  11. janúar 2011  í Árnesi kl.   13:00.


Mætt: Gunnar Örn Marteinsson, Jón Vilmundarson, Harpa Dís Harðardóttur, Oddur Guðni Bjarnason og Björgvin Skafti Bjarnason. Kristjana  H. Gestsdóttir  ritaði fundargerð.
Gunnar setti fund og athugaði hvort athugasemdir væru við fundarboð en svo reyndist ekki vera.

1.  Þriggja ára fjárhagsáætlun 2012-2014.  Fyrri umræða. 
Vísað til síðari umræðu.


2.  Tillaga að styrk vegna vegalengdar í leikskóla lögð fram og rædd.
Sveitarstjórn samþykkir að þeir foreldrar sem þurfa að aka meira en  40 km á dag til að koma börnum í leikskóla fái greiddan styrk sem nemur 30 kr. á km sem aka þarf umfram 40 km á dag.  Ekki er greitt fyrir akstur nema sem nemur einni ferð á dag fram og til baka í leikskóla frá hverju heimilli, styrkurinn hækkar ekki þó svo foreldrar eigi fleiri en eitt barn í leikskóla. Styrkurinn er endurreiknaður 30. des. ár hvert, næst fyrsta 30. des. 2011 og  er miðaður við  vísitölu neysluverðs, undirvísitala 0711 bílar, sem er 193,69 í des. 2010. Styrkurinn er afturvirkur til ágúst 2010, miðað við núverandi styrkupphæð. Styrkurinn kemur til útborgunar tvisvar á ári í júní og desember.


3.  Fundur skipulags-og byggingarnefndar 30. fundur,  jafnframt eru lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda byggingarnefndar fundir nr. 56 og 57.
Fundagerð skipulags- og bygginganefndar  fundargerð nr. 30 staðfest.
Afgreiðslufundargerðir nr. 56 og 57 lagðar fram.


4.  Fundargerð stjórnar SASS  439. fundur haldinn 10.12.2010. 
Fundargerð lögð fram.


5.  Ásborg Arnþórsdóttir ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu kom og ræddi  um málefni tengd hennar starfi.


6.  Tekin ákvörðun um götuheiti í Brautarholti.
Sveitarstjórn  þakkar íbúum fyrir góðar tillögur að götunöfnum í Brautaholti
og samþykkir að nöfnin  Malarbraut, Holtabraut og Vallarbraut verði notuð hér eftir.  Ágúst Guðmundsson, Brautarholti  sendi þessar tillögur til sveitarstjórnar og á hann ómældan heiður skilið af komandi kynslóðum.


7.  Tillaga að samþykkt um fráveitur í Skeiða-og Gnúpverjahreppi lög fram og samþykkt og vísað til síðari umræðu samkv. lögum.


8.  Farið yfir möguleika í fjarskiptamálum.
Sveitarstjórn skipar starfshóp sem kanni möguleika á lagningu ljósleiðara um sveitarfélagið. Niðurstöður úr þeirri verði lagðar fyrir sveitarstjórn og atvinnumálanefnd.


9.  Farið yfir stöðu mála í þeim hluta félagsheimilisins Árness þar sem framkvæmdir standa ekki yfir.
Áveðið að sveitarstjórn hitti hugsanlega rekstraraðila sem auglýst hefur verið eftir á næsta fundi.


10. Áskorun til innanríkisráðherra.
Sveitastjórn Skeiða og Gnúpverjahrepps hafnar öllum hugmyndum um vegtolla á Suðurlandsvegi vegna framkvæmda á breikkun Suðurlandsvegar.

 

11. Bókun frá Oddi G. Bjarnasonar.
Ég lýsi mikilli reiði yfir þeim uppsögnum þriggja starfsmanna í sveitarfélaginu í desember sl. Það er tveggja sundlaugavarða og bókasafnsfræðings. Ég bendi á að uppsagnir án samþykktar sveitastjórnar er algerlega á ábyrð oddvita. Hin almenna regla hlýtur að vera sú að þeim sem sagt er upp sé kynnt fyrirhugaðar breytingar áður en til uppsagnar kemur. Það er krafa mín að oddviti biðji þetta ágæta starfsfólk afsökunar á fljótfærni sinni. Allar uppsagnir ber að afhenda af yfirmanni ekki sem almennur póstur. Ég frábið mig að eiga nokkurn þátt í þessum uppsögnum og þykir miður að oddviti sendi þessar uppsagnir í nafni allrar sveitastjórnar. Ég frétti af þessum uppsögnum á annan hátt en frá oddvita.

 

Svar við bókun Odds G. Bjarnasonar frá K-lista.
Varðandi uppsagnir þriggja starfsmanna Skeiða-og Gnúpverjahrepps þá eru þær tilkomnar vegna breytinga á starfshlutföllum viðkomandi starfsmanna, ég kynnti þær breytingar fyrir sveitarstjórn bæði óformlega og við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011. Oddi Bjarnasyni  átti að vera full kunnugt um að breytingar á starfshlutföllum viðkomandi stafsmanna var hluti af forsendum fjárhagsáætlunar, rétt er að taka fram að Oddur gerði ekki athugasemdir við fjárhagsáætlunina. Uppsagnirnar eru undirritaðar af oddvita og sendar sem slíkar en ekki í nafni sveitarstjórnar eins og Oddur virðist álíta og er miður að hann skuli ekki hafa haft fyrir því að kynna sér málið betur áður en þessi bókun var lögð fram. Það er vissulega neyðarbrauð að þurfa að segja upp starfsfólki en var í þessum tilfellum nauðsynlegt til að hagræða í rekstri sveitarfélagsins.

 

12. Bókun Frá Oddi G. Bjarnasyni
Ég krefst þess að allar stöður sem manna þarf í sveitafélaginu Skeiða- og Gnúpverjahreppi verði auglýstar á opinberum vettvangi t.d. í héraðsfréttablöðunum (Dagskránni og Sunnlenska) eða á landsvísu eftir umfangi stöðunnar. Með þessu má væntanlega ráða úr stærri hóp einstaklinga. Einnig að allar verktakaframkvæmdir sem vinna þarf fyrir
sveitafélagið verði auglýstar á opinberan hátt til þess að ná niður kostnaði framkvæmda.

 

Svar við bókun Odds G. Bjarnasonar frá K-lista.
Varðandi kröfu Odds Bjarnasonar um að allar stöður  hjá sveitarfélaginu verði auglýstar, þá er sú krafa óþörf vegna þessa að það er vinnuregla að auglýsa allar stöður sem eru til frambúðar. Varðandi verktakaframkvæmdir þá hefur sveitarfélagið innkaupareglur til að fara eftir. Hægt er að kynna sér þær reglur á heimasíðu sveitarfélagsins.

Mál til kynningar.
A. Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga  782. fundur.
B. Erindi frá svæðisráði um málefni fatlaðra á Suðurlandi
C. Erindi frá sveitarstjóra Hrunamannahrepps.

Fleira ekki, fundi slitið kl. 17:00.