Sveitarstjórn

31. fundur 08. maí 2012 kl. 13:00

31. fundur haldinn í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps, þriðjudaginn 08 maí.2012 í Árnesi kl. 13:00.

 Mættir: Gunnar Örn Marteinsson, Jón Vilmundarson, Harpa Dís Harðardóttir, Oddur Guðni Bjarnason og Björgvin Skafti Bjarnason.  Kristófer A. Tómasson, sveitarstjóri, ritaði fundargerð.
 Gunnar Örn setti fund og spurðist fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboð en svo reyndist ekki vera. Gunnar oddviti fór lauslega yfir þau mál sem eru á dagskrá.


1. Ársreikningur Skeiða og Gnúpverjahrepps fyrir árið 2011 síðari umræða.
Reikningur lagður fram og samþykktur samhljóða.

2. Fundargerð aðalfundar embættis skipulags og byggingafulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps bs. Haldinn 23.04 2012.  Fundargerð samþykkt samhljóða. Innan fundargerðar er gjaldskrá embættisins og var hún einnig samþykkt samhljóða.


3. Fundargerð skipulags og bygginganefndar 46.fundar. Haldinn 23.04.2012.

 


4. Fundargerð skólanefndar grunnskóla.24.04.2012. Fundargerð samþykkt samhljóma.

 

5. Fundargerð skólanefndar leikskóla haldinn 30.04.2012. Fundargerð samþykkt samhljóða.

 

6. Fundargerð fræðslunefndar Flúðaskóla haldinn 30.04.2012. Fundargerð samþykkt samhljóða.

 

7. Deiliskipulag Minkabús að Ásum. Ívar Pálsson lögmaður sendi sveitarfélaginu álitsgerð. Auk þess var lögð fram loftmynd er sýnir afstöðu fyrirhugaðs minkabús. Sjá fylgiskjöl. Allnokkrar umræður urðu um málið og eftirfarandi bókað. Lögð var fram tillaga að deiliskipulagi fyrir minkabú á spildu úr landi Ása í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Um er að ræða um 4,5 ha spildu sem liggur upp að Stóra-Núpsvegi nr. 382, alveg við minkabúið Mön. Innan skipulagssvæðisins eru tveir byggingarreitir. Í öðrum þeirra verður heimilt að reisa minkahús sem samtals geta orðið allt að 8.880 fm að stærð og í hinum er gert ráð fyrir tveimur allt að 6 m háum tönkum. Tillagan var kynnt skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 á kynningarfundi sem haldinn var á skrifstofu sveitarstjórnar í Árnesi þann 2. maí sl. en áður hafði lýsing skv. 2. mgr. 40. gr. laganna verið kynnt með auglýsingu í Dagskránni og Fréttablaðinu auk þess sem aðliggjandi landeigendur fengu hana sérstaklega senda.


Tillaga samþykkt með fjórum atkvæðum. Gunnar Örn Marteinsson greiddi atkvæði gegn tillögunni.
Hann óskaði eftir að eftirfarandi yrði bókað : Ljóst er að deiliskipulagstillagan takmarkar landnot nærliggjandi jarða með vísan í 4. mg. 24. gr. reglugerðar um hollustuhætti  nr. 941/2002, eigendur tveggja nærliggjandi jarða hafa í lýsingarferli tillögunnar sent inn athugasemdir við framkvæmdirnar og er ljóst að andstaða er að þeirra hálfu við áformin sem fram koma í tillögunni, því tel ég  ekki skynsamlegt að auglýsa hana nema fyrir liggi samkomulag við þá landeigendur sem tillagan kemur til með að takmarka landnot hjá.

 


8. Þingskjal 1165 — 727. mál. Tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Oddviti lagði fram eftirfarandi greinargerð við ofangreinda tillögu.
Sveitarstjórn Skeiða-og Gnúpverjahrepps telur að vinna við gerð rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúruauðlinda muni ekki ná þeim tilgangi sem að var stefnt vegna þess að búið er að taka málið úr þeim faglega farvegi sem verkefnastjórn rammaáætlunar vann sína vinnu í og setja málið í þann pólitíska búning sem fram kemur í frumvarpinu og þar með sé sú sátt sem ná átti um málflokkinn að engu orðin.  Sveitarstjórn vísar að öðru leiti í athugasemd sem send var inn í opnu samráðs- og kynningarferli rammaáætlunar og samþykkt var í sveitarstjórn 4. október 2011 og fylgir með í umsögn þessari.   

 „Sveitarstjórn Skeiða-og Gnúpverjahrepps fagnar því að vinna við rammaáætlun skuli vera á lokastigi og telur mikilvægt að faglegt mat ráði því í hvaða flokka virkjanakostir flokkast og pólitík hafi sem minnst áhrif þar á.
Nokkrir virkjanakostir sem eru á skipulagssvæði sveitarfélagsins í Hvítá og Þjórsá eru teknir fyrir í rammaáætlun og raðað í mismunandi flokka eftir því sem verkefnastjórnin telur viðeigandi.  Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við þá röðun að öðru leiti en því að við teljum að Norðlingaölduveita í 566-567,5 m y.s. án setlóns hefði átt að fara í biðflokk en ekki í verndunarflokk eins og tillagan gerir ráð fyrir.
Rökin fyrir því áliti er að ekki hefur farið fram sérstakt umhverfismat vegna þeirrar framkvæmdar og þess vegna liggur ekki fyrir hver áhrif hennar yrðu á umhverfið og þá einkum Þjórsárverin. Veita í fyrr greindri hæð kæmi til með að standa utan veranna.  Röksemdarfærsla formanns nefndarinnar á kynningarfundi um rammaáætlun á Selfossi þann 21. september 2011 fyrir því að setja veituna í verndunarflokk voru að gert væri ráð fyrir stækkun friðlandsins í Þjórsárverum í náttúruverndaráætlun en samkvæmt henni virðast mörkin til suðurs dregin talsvert útfyrir það sem fólk á þessu svæði hefur talið vera hin eiginlegu Þjórsárver.  Rétt er að vekja athygli á því að náttúruverndaráætlun 2009-2013 var lögð fram eftir að 12 manna verkefnisstjórn rammaáætlunar var skipuð í september 2007. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé hvers vegna verið var að taka einn kost sem var til skoðunar í rammaáætlun og útiloka hann áður en vinna verkefnastjórnar rammaáætlunar lauk?  Eins má líka spyrja hvers vegna var þá ekki þessi kostur tekinn strax út úr vinnu verkefnastjórnar þegar náttúruverndaráætlun 2009-2013 lá fyrir ef hún útilokaði veituna?  Einnig er rétt að benda á að um nokkurt skeið hefur verið starfandi nefnd sem átti að vinna að hugmyndum um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, áhugi á starfi þeirrar nefndar virðist hafa gufað upp eftir að í ljós kom að fulltrúar sveitarfélaganna á svæðinu töldu eðlilegast að friðlandsmörkinn réðust endanlega eftir að verkefnistjórnin um rammaáætlun hefði lagt faglegt mat á fyrirhugaða Norðlingaölduveitu í 566-567,5 m y.s. án setlóns.
Sveitarstjórn Skeiða-og Gnúpverjahrepps er ekki að taka afstöðu til þess hvort ráðast eigi í framkvæmdir við Norðlingaölduveitu í fyrr greindri hæð en telur eðlilegt að þessi kostur eins og aðrir séu flokkaðir óháð inngripum stjórnvalda eftir að vinna verkefnastjórnar rammaáætlunar hófst og ítrekar það álit að veitan hefði átt að flokkast í biðflokk uns fram hefði farið umhverfismat á framkvæmdinni.“


Tillagan samþykkt með fjórum atkvæðum. Oddur Bjarnason greiddi atkvæði gegn tillögunni. Oddur óskaði eftir að bókað yrði að hann styðji framkomna tillögu alþingis.

 

9. Kjör á fulltrúa á aðalfund Vottunarstofunnar Túns fimmtudag 10 maí 2012.
Sveitarstjórn samþykkir að tilnefna Guðfinn Jakobsson í Skaftholti sem fulltrúa.

 

10. Endurbætur á aðstöðu í félagsheimili í Árnesi.
Lagðar voru fram teikningar að aðstöðuhúsi við félagsheimilið í Árnesi. Samþykkt að kostnaðargreina bygginguna og sækja um byggingaleyfi. Sveitarstjóra falið að vinna að málinu.

 

11. Vátryggingar Skeiða og Gnúpverjahrepps. Samþykkt að bjóða út tryggingar sveitarfélagsins og yfirfara virði lausafjármuni þess.

 

12.  Spilda úr landi Miðhúsa. Sveitarstjórn samþykkir að stofnað verði lögbýli á  58,2 ha spildu úr landi Miðhúsa í Skeiða og Gnúpverjahreppi. Eigendur eru Sigfinnur Þorleifsson og Bjarnheiður Guðmundsdóttir.

 

13.  Útboð á ljósleiðara um Skeiða og Gnúpverjahrepp.
Samþykkt af sveitarstjórn að bjóða út ljósleiðaramál. Reiknað með að útboðsgögn verði tilbúin um 15 maí.

 

Mál til kynningar

 

A. Kjörskrárstofnar vegna forsetakosninga 30. Júní 2012.


B. Tölvukerfi Skeiða og Gnúpverjahrepps.

 

C. Ályktun Þjórsársveita.


D. Fundargerð Sambands Íslenkra sveitarfélaga nr. 796.


E. Hópur er vinnur að mati á áhrifum vatnsaflsvirkjana.

 

F. Fundargerð stjórnarfundar nr.214 í Sorpstöð Suðurlands.

 

G. Umsögn SASS um tillögu til stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

 


H. Fundargerðir funda Heilbrigðisnefndar Suðurlands nr. 141 og 142.

 

I. Breyting á aðalskipulagi Skeiða og Gnúpverjahrepps.

 

Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn 12. júní. 2012

 

Fleira ekki.  Fundi slitið kl. 15:55