Sveitarstjórn

37. fundur 06. nóvember 2012 kl. 13:00

37. fundur í sveitarstjórn Skeiða-og Gnúpverjahrepps í Árnesi þriðjudaginn  06. nóvember  2012  kl. 13:00.
      

Mætt til fundar: Gunnar Örn Marteinsson, Jón Vilmundarson,  Oddur Guðni Bjarnason, Björgvin Skafti Bjarnason og Harpa Dís Harðardóttir.  Kristófer A. Tómasson, sveitarstjóri, ritaði fundargerð.

Gunnar Örn setti fund og spurðist fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboð en svo reyndist ekki vera. Jón Vilmundarson óskaði eftir hluta fundardagskrár yrði frestað vegna fjölda mála.

 Ákveðið var að fresta liðum 2, 11- 17 lið 19 og 24- 25. Aðrir liðir verði teknir fyrir. Tillagan var samþykkt samhljóð.

 Sveitarstjóri óskaði eftir að Njörður Tómasson starfsmaður Símans fengi leyfi til að mæta á fundinn og var það samþykkt. Gunnar oddviti fór lauslega yfir þau mál sem eru á dagskrá.

Dagskrá:

1. Kynning á áformum um virkjunina Búrfell 2.
 Albert Guðmundsson ásamt Björk Guðmundsdóttir frá Landsvirkjun auk Steinars I Halldórssonar og Hauks Haraldssonar frá Almennu verkfræðistofunni kynntu áform um Virkjunina Búrfell 2.Virkjunin mun hafa getu til að framleiða allt að 100 Megawöttum rafmagns.Virkjað rennsli verður  um 100 metrar á sekúndu. Ekki hefur verið ákveðið hvort stöðvarhús verður ofan eða neðanjarðar. 


2.  Beiðni um styrkveitingu til kvenna í leikfimi.
Máli frestað.

3.  Styrkur vegna kaupa á strætókortum.
Samþykkt samhljóða að veita styrk að fjárhæð 55 þkr fyrir skólaárið 2012-2013.

4.  Beiðni um styrk til Afréttarmálafélags Flóa og Skeiða. Stjórn Afréttarmálafélags Flóa- og Skeiða óskar eftir styrk til girðingaframkvæmda kr 185.000 á ári í þrjú ár (2013-1015) Beiðni samþykkt samhljóða. Aðalfundargerð Afréttarmálafélags einnig tekin fyrir og samþykkt.


5.  Beiðni um fjárstuðning  til  LH. Landssamband hestamanna óskar eftir styrk að fjárhæð 100.000 kr vegna vinnslu gagnagrunnar fyrir reiðvegi.  Samþykkt var að fresta afgreiðslu málsins og afla ítarlegri upplýsinga.


6.  Beiðni um stuðning  til SÁA.  Betra líf. Leitað er eftir stuðningi við átakið,   ,,Á orði og á borði,,. Erindi lagt fyrir og kynnt.


7.  Skýrsla Afréttarmálanefndar Gnúpverja.
Samhliða skýrslunni er farið fram á styrk til endurbóta á girðingum. Erindi tekið jákvætt og vísað til gerð fjárhagsáætlunar.

 

8.  Fjárhagsáætlun  2013 fyrri umræða. Sveitarstjóri kynnti Fjárhagsáætlun fyrir árið 2013 auk þess nær áætlun til ársins 2016. 
Fjárhagsáætlun vísað til síðari umræðu.

 

9. Gjaldskrá  Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2013. Lögð fram tillaga að gjaldskrá Skeiða- og Gnúpverjahrepps fyrir árið 2013. Tillagan samþykkt.

Vatnsgjald
Gjaldskrá vatnsveitu  fyrir íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði veður óbreytt frá þeirri gjaldskrá sem í gildi er frá árinu 2012.


Seyrulosunargjald
Árlegt gjald fyrir  losun á seyru samkvæmt samþykkt nr. 149/2004 um hreinsun fráveiturvatns og reglubundna losun, vinnslu eða förgun seyru veðrur 6.915.-kr á rotþró.

Sorpgjöld 
Sorpgjöld eru lögð á samkvæmt samþykkt um sorphirðu og meðhöndlun úrgangs í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar 8. desember 2005.

 Samþykktin var staðfest á 84. fundi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands þann 14. mars 2006, og staðfest af Umhverfisráðuneyti þann 5. janúar 2007.


Sorpgjöld árið 2013 verða eftirfarandi:


Sorphirðugjald 240 Lítrar 12.000.-kr.
Sorphirðugjald 660 Lítrar 35.360.-kr.
Sorphirðugjald 1.100 Lítrar 58.500.-kr.
Sorpeyðingargjald íbúðarhús 12.170.-kr.
Sorpeyðingargjald sumarhúsa 9.100.-kr.
Sorpeyðingargjald atvinnu 33.280.-kr.


Holræsagjald :
Þar sem holræsakerfi er til staðar á vegum sveitarfélagsins er innheimt holræsagjald, nemur gjaldið 0,15% af  fasteignamati.


Lóðaleigugjöld
Lóðaleigugjöld innheimtast eftir lóðaleigusamningum.

Gjaldskrá mötuneytis frá 1. Janúar 2013.

Hádegisverður  til nemenda Þjórsárskóla kr. 280.-
Hádegisverður til nemenda Leikholts kr. 200.-
Hádegisverður til kennara, leikskólakennara og annarra starfsmanna leik- og grunnskóla kr. 280.-
Hádegisverður til starfsmanna annarra deilda en skóla og leikskóla. kr. 560.-

 

Gjaldskrá Þjórsárskóla:

Morgunhressing kr. 75.-
Skólavistun klst. kr. 220.-
Aukavistun klst. kr. 220.-
Náðarkorter 15 mín. 520.-

Gjaldskrá Leikskólans Leikholts frá 1. Janúar 2013


Stök morgunhressing kr. 70.-
Stök síðdegishressing kr. 80.-
Klukkustundargjald kr. 128.-
Gjald fyrir 45 mín. Kr. 96.-
Gjald fyrir 30 mín. Kr. 64.-
Gjald fyrir klukkustund á öðrum tímum en frá kl. 08 til kl 16:00 kr. 260.-
Gjald fyrir hverjar byrjaðar 15 mínútur kr. 500.-

10. Tillaga að útsvarsprósentu- og álagningu fasteignagjalda  2013.

 Lögð fram tillaga að útsvarsprósentu- og álagningu fasteignagjalda fyrir árið 2013.Tillagan samþykkt.

A Útsvar fyrir árið 2013 verði 14,48 %.

B. Fasteignagjöld  A- Flokkur Fasteignaskattur íbúðahúsnæðis eins og þær eru skilgreindar í 3. Gr. Lögum nr./ 1995. Verður 0,50 % af heildarfasteignamati.

B Flokkur.
Fasteignaskattur af opinberum byggingum eins og þær eru skilgreindar í 3.gr. í lögum nr. 4/1995 verður 1.32 % af heildar fasteignamati.


C-flokkur.
Fasteignaskattur atvinnuhúsnæðis og öðrum eins og þær eru skilgreindar í 3. Gr. Í lögum nr. 4/1995 verður 1,65% af heildar fasteignamati.

Afsláttur af fasteignaskatti fer eftir samþykktum sveitarstjórnar frá 7 febrúar 2006.


Samkvæmt 3. Grein þeirrar samþykktar geta þeir sem eru eldri en 67 ára og þeir sem eru 75 % öryrkjar eða meira sótt um afslátt á fasteignagjöldum þeirrar íbúðar sem þeir búa í og ekki er nýtt af örðum, tekjuviðmið er í lið 7.

Gjalddagar fasteignaskatts eru í lið 8.

Lagt er til að afsláttur á fasteignagjöldum taki breytingum frá árinu 2012 í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverð á tímabilinu 1.des 2012 til 1.des 2013.

 

11.  Umsögn. Drög að lagafrumvarpi um almennissamgöngur. Afgreiðslu erindis frestað.


12.  Umsögn. Breytingar á lögum um félagslega aðstoð. Afgreiðslu erindis frestað.

13.  FÍ. Erindi vegna minnisvaraða um Má Haraldsson og upplýsingaskiltis. Afgreiðslu erindis frestað.

14.  Aqua Islandia,  erindi frá Árna B. Guðjónssyni. Afgreiðslu erindis frestað
15.  Hjólhýsasvæðið í þjórsárdal.  Skógrækt ríkisins. Afgreiðslu erindis frestað

16.  Umhv. ráðuneyti. Utanvegaakstur,  flokkun vega  ( frá nóv 2008).
Afgreiðslu  erindis frestað.

17.  Viðaukasamningur  ÍG og SG 2012. Afgreiðslu erindis frestað.

18.  Vorsbær 2 Deiliskipulag. Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða :
Ákaflega lítil reynsla er komin á rekstur vindmylla á Íslandi en á döfinni er að reisa tvær slíkar í tilraunarskyni við Búrfell að undangengnum vindmælingum til langs tíma, engar slíkar mælingar hafa átt sér stað í landi Vorsabæjar 1. Ljóst er að fyrirhuguð mannvirki hafa talsverð sjónræn áhrif og að okkar áliti falla vindmyllur af þessari stærðargráðu ákaflega illa í landslag á svæðinu, auk þess teljum við þó svo ekki sé nauðsynlegt að gera sérstakt umhverfismat á framkvæmdinni samkvæmt lögum að gerð slíks mats sé nauðsynlegt til að hægt sé að gera sér betur grein fyrir áhrifum framkvæmdarinnar. Á meðan ekki liggja fyrir nákvæmari upplýsingar fyrir eins og til dæmis er varðar athugasemdir Umhverfisstofnunar teljum við ekki rétt að auglýsa tillöguna.

19.  Steinkerstún – Spilda úr landi Ása. Eftirfarandi tillaga samþykkt samhljóða. Lagt fram lóðablað yfir um 16,2 ha spildu úr landi Ása, lnr. 166523, sem liggur upp að landamörkum Stóra-Núps og Skaftholts auk þess sem vestari hluti hennar liggur að Kálfa. Í greinargerð á uppdrætti er texti úr jarðalýsingu Ása frá 1890 og miðast austur og suðurmörk spildunnar við þá lýsingu. Ný spilda mun heita Steinkerstún. Sveitarstjórn tekur ekki afstöðu til hnitsetningar á útmörkun jarðarinnar Ása en samþykkir stofnun ofangreindrar lóðar skv. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki er gerð athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga.

20.  Skipulagsstofnun.  Tillaga að landsskipulagsstefnu 2013-2014.
 Ósk um umsögn. Afgreiðslu erindis frestað.

21.  Menntamálaráðuneyti: Þjóðarsáttmáli gegn einelti.Afgreiðslu erindis frestað.


22.  Skólanefndarfundargerð nr. 21 -  grunnskólamál. Fundargerð lögð fram og samþykkt. Sveitarstjórn færir Þjórsárskóla hamingjuóskir með að hafa hlotið Grænfánann.

23.  Fundargerð nr. 05  Menningar, æskulýðs, velferðar og  jafnréttisnefndar. Afgreiðslu fundargerðar frestað.


24.  Forleiguréttur að veiðiréttindum í Fossá í þjórsárdal. Afgreiðslu erindis frestað.


25.  Drög að samningi milli Björgunarsveitarinnar Sigurgeirs og Skeiða og Gnúpverjahrepps. Afgreiðslu erindis frestað.


26.  Svar við bréfi frá Skipulagsstofnun dags. 1.10.2012 varðar deiliskipulag fyrir minkabú að Ásum, Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Oddviti gat þess að sér fyndist umrætt mál vera í sérkennilegum farvegi. Jón Vilmundarson gat um bréf það er barst frá Skipulagsstofnun 1 október 2012. Skipulagsstofnun óskar þar eftir útskýringum á ákveðnum liðum er vörðuðu bókun varðandi afgreiðslu um deiliskipulag minkabús að Ásum. Stofnunin óskar í því bréfi eftir  nánari útskýringum um bókunina. Jón gat þess að Torfi Sigurðsson lögmaður hjá Lögmönnum Suðurlandi hefði verið fenginn til að svara athugasemdunum frá Skipulagsstofnun en hann hefur ekki áður unnið að málinu fyrir sveitarfélagi. Svarbréf frá Torfa til skipulagsstofnunar lá fyrir fundi. Auk Jóns stóðu Harpa Dís Harðardóttir og Skafti Bjarnason að því að ráða Lögmenn Suðurlandi til að vinna að málinu. Oddur Bjarnason gat þess að hann kæmi ekki að bókuninni. Fram til þessa hefur Ívar Pálsson lögmaður unnið á málinu fyrir sveitarfélagið er varðar deiliskipulag minkabúsins og hafði hann lagt fram tillögu að svari til Skipulagsstofnunar.fyrir hönd sveitarfélagsins  Gunnar oddviti lýsti óánægju sinni með að leitað hefði verið til nýs lögmanns varðandi umrætt svar til Skipulagsstofnunar. Hann benti á að ólíklegt væri að áðurnefndum sveitarstjórnarmönnum væri það heimilt án þess að til kæmi sérstök samþykkt á sveitarstjórnarfundi. Gunnar oddviti greindi jafnframt frá óánægju sinni með að hafa ekki verið hafður með í ráðum við að ráða annan lögmann til verksins en áður hafði unnið að því. Auk þess benti Gunnar á að hann hefði óskað fyrir nokkrum vikum eftir fundi með allri sveitarstjórninni til að upplýsa sig um stöðuna. Harpa gat þess að þau sem að bókuninni stóðu hefðu ekki verið ánægð með tillögu er komið hafði að svari frá Ívari Pálssyni til Skipulagsstofnunar. Þau hefðu því talið æskilegt að leita til annars lögmanns. Gunnar gat þess að sér hefði fundist æskilegra að það svar sem Ívar Pálsson hafði útbúið fyrir Skipulagsstofnun. Að ráða annan lögmann myndi auk þess tefja málið. Harpa Dís sagði að henni ásamt Jóni og Skafta hefði fundist ákjósanlegra að leita til nýs lögmanns. Þeim hefði ekki líkað svar Ívars.
Jón Vilmundarson, Harpa Dís Harðardóttir og Björgvin Skafti Bjarnason lögðu fram eftirfarandi svar við bréfi Skipulagsstofnunar frá 1. Október 2012:


„Með bréfi dags. 1. október 2012 gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við afgreiðslu sveitarstjórnar á deiliskipulagi minkabús að Ásum. Athugsemdir Skipulagsstofnunar litu að því að stofnunin taldi að ekki lægi fyrir með nægilega skýrum hætti hver væri afstaða sveitarfélagsins til umsagnar Landslaga frá 24. júlí og 13. ágúst 2012 um nánar tilgreind atriði.

Alls bárust athugasemdir frá 5 aðilum, þ.e. fulltrúaráði Skaftholts, Jóhanni Valdimarssyni, Önnu Sigríði Valdimarsdóttur, Lex lögmannstofu f.h. eigenda og umráðamanna Stóra-Núps og Lex lögmannstofu f.h. forstöðumanns sjálfseignarstofnunarinnar að Skaftholti.

Áréttað er að miðað er við að athugasemdir fulltrúa Skaftholts, Jóhanns Valdimarssonar, Önnu Sigríðar Valdimarsdóttur og Lex lögmannstofu f.h. forstöðumanns Skaftholts falli efnislega að mestu leyti að þeim athugasemdum sem fram koma í athugasemdum Lex lögmannsstofu f.h. eigenda Stóra-Núps. Til einföldunar verður því fjallað efnislega um athugasemdirnar í samræmi við framsetningu athugasemda Lex lögmannstofu.

1. Framkominn athugasemd um mögulega takmörkun á eignarrétti.
Stutt samantekt athugasemda:
Fulltrúaráð Skaftholts telur að tillagan skerði lífsgæði að Skaftholti og dragi úr möguleikum til uppbyggingar. Jóhann Valdimarssonar telur tillöguna skerða notkunarmöguleika Stóra-Núps á 25 ha. lands m.a. helsta útivistarsvæði jarðarinnar. Tillagan rýri verðgildi jarðarinnar og takmarki möguleika til starfsemi á henni. Vísar til neikvæðra áhrifa; flugna, sjón- og lyktarmengunar. Anna Sigríður Valdimarsdóttir telur tillöguna skerða notkunarmöguleika á um 27 ha. lands Stóra-Núps. Engu breyti þó það land hafi ekki verið tekið undir túnrækt enda hafi landinu verið hlíft sem útivistarsvæði en m.a. sé mögulegt að byggja þar sumarhús enda megi byggja þrjá sumarbústaði á hverri jörð þrátt fyrir að land sé skilgreint sem landbúnaðarsvæði. 
Lex lögmannstofa bendir á að nái áform eigenda Ása fram að ganga verði á sama stað rekin minkabú með um 9.000 læður. Heildar fjöldi læða á íslenskum búum sé um 40.000. Um verði að ræða verksmiðjubú. Reglur 4. mgr. 24. gr. reglugerðar um hollustuhættu nr. 941/2002 kveði á um að óheimilt sé að hafa loðdýrabú, alifuglabú og svínabú nær mannabústöðum, matvælafyrirtækjum eða vinnustöðum annarra en búsins sjálfs en sem nemi 500m. Samkvæmt lauslegum útreikningum falli 41,7 ha. innan lands Ása, 27 ha. innan lands Stóra-Núps, 30,3 ha. innan lands Skaftholts, 2,9 ha. í landi Skeiða- og Gnúpverjahrepps og 1,3 ha. í landi Austurhlíðar. Eigendur Ása hafa yfir að ráða 344 ha. lands en hafa valið að koma hinu 4,5 ha. skipulagssvæði fyrir þannig að 60% af hinu lögbundna áhrifasvæði taki til annarra landa. Sá hluti lands Stóra-Núps sem sé næst minkahúsunum sé sérlega viðkvæmur. Um sé að ræða útivistar- og verndunarsvæði ætlað til frístundaafnota fyrir fólk sem tengist Stóra-Núpi. Ábúendur og umráðmenn telji áhrifasvæði minkabúa mun stærra en leiði af framangreindum grenndarreglum. Lykt frá minkabúinu Mön finnist oft á hlaðinu að Stóra-Núpi sem sé 1,5 km í burtu. Þá sé hætta á flugnageri vegna slíkra búa. Þá er talið að stækkun búsins muni hafa í för með sér stigmögnun umhverfisáhrifa sem leiða muni til stórfelldrar eignaskerðingar og verðfalls á landi Stóra-Núps. Vísað er til dóms Hæstaréttar í máli nr. 349/2002 þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að verði lands með vegi lækkaði í allt að 250 m fjarlægð frá veginum þrátt fyrir að veghelgunarsvæði væri ekki nema 30m. 
Umsögn Undirritaðra sveitarstjórnarmanna: 
Undirritaðir sveitarstjórnarmen taka undir umsögn Landslaga frá 13. ágúst sl. en þar kemur fram að skipta megi grenndaráhrifum vegna tillögunnar, þ.m.t. mögulegri skerðingu á notkun nágrannajarða og takmörkun á eignarrétti eigenda þeirra, í tvennt. Annars vegar sé um að ræða skerðingu vegna hinnar lögbundnu takmörkunar á notkun lands í nágrenni slíkrar starfsemi sem minkaeldi er á grundvelli 4. mgr. 24. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002. Í henni er kveðið á um að óheimilt sé að hafa loðdýrabú, alifuglabú og svínabú nær mannabústöðum, matvælafyrirtækjum eða vinnustöðum annarra en búsins sjálfs en sem nemur 500 m. Hins vegar sé um að ræða skerðingu sem leitt geti af grenndaráhrifum s.s. flugum, sjón- og lyktarmengun. 
Ef vikið er fyrst að takmörkun skv. 4. mgr. 24. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 þá er ljóst að tillagan stækkar óverulega það áhrifasvæði sem þegar fellur undir slíka takmörkun miðað við takmörkunina frá því búi sem fyrir er. Skv. núgildandi skipulagi á svæðinu eru umrædd svæði skilgreind sem landbúnaðarsvæði. Áfram verður heimilt og mögulegt að nýta þau sem slík. Þannig kemur tillagan ekki í veg fyrir annars konar nýtingu í samræmi við gildandi skipulag s.s. undir hefðbundin landbúnaðarnot eða til nýtingar svæðanna sem útivistarsvæða. 
Hvað varðar annars konar takmörkun eignarréttar eða grenndaráhrifa þá bendir sveitarfélagið á að sú starfsemi sem fyrirhuguð er á því svæði sem skipulagið tekur til er starfsleyfisskyld. Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga vinna eftir samræmdum starfsleyfisskilyrðum, sbr. lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Þá gildir um starfsemina ákvæði reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands er ábyrgt fyrir eftirliti með ytra umhverfi og fellur lyktarmengun þar undir. Með samþykkt þessarar deiliskipulagstillögu er ekki verið að veita neinar undanþágur frá þeim lögum og reglum sem gilda um fyrirhugaða starfsemi. 
Bent er á að umrætt svæði er á skipulögðu landbúnaðarsvæði. Engar kvartanir hafa borist vegna starfsemi þess minkabús sem fyrir er á svæðinu og bendir ekkert til þess að lykt eða önnur óþægindi frá fyrirhugaðri starfsemi verði meiri en búast má við á landbúnaðarsvæðum almennt.


2. Framkominn athugasemd um mögulega bótaskyldu sveitarfélagsins vegna gildistöku skipulagsins.
Stutt samantekt athugasemda:
Fulltrúaráð Skaftholts telur að tillagan skerði lífsgæði að Skaftholti og dragi úr möguleikum til uppbyggingar. Jóhann Valdimarsson telur tillöguna skerða notkunarmöguleika Stóra_núps á 25 ha. lands m.a. helsta útivistarsvæði jarðarinnar. Tillagan rýri vergildi jarðarinnar og takmarki möguleika til starfsemi á henni. Vísar til neikvæðra áhrifa; flugna, sjón- og lyktarmengunar. Anna Sigríður Valdimarsdóttir telur tillöguna skerða notkunarmöguleika á um 27 ha. lands Stóra-Núps. Engu breyti þó það land hafi ekki verið tekið undir túnrækt enda hafi landinu verið hlíft sem útivistarsvæði en m.a. sé mögulegt að byggja þar sumarhús enda megi byggja þrjá sumarbústaði á hverri jörð þrátt fyrir að land sé skilgreint sem landbúnaðarsvæði. 
Lex vísa til 51. gr. Skipulagslaga um hlutlæga bótaábyrgð sveitarfélagsins. Telja að samþykkt sveitarfélagsins geti að nauðsynjalausu bakað sveitarfélaginu skaðabótaábyrgð. Þrátt fyrir að tekið væri tillit til núverandi starfsemi stækki áhrifasvæði vegna hins nýja skipulags til muna. Telja vafasamt að byggja á loforði eigenda Ása um að halda sveitarfélaginu skaðlausu verði tjón. Ómálefnalegt sé að byggja ákvörðun á slíku loforði. Vísað til dóma Hæstaréttar í máli nr. 523/2001 og nr. 461/1998.
Umsögn undirritaðra sveitarstjórnarmanna : 
Undirritaðir Sveitarstjórnarmenn vísa til 51. gr. Skipulagslaga, sem mælir fyrir um að ef verðmæti fasteignar lækkar, nýtingarmöguleikar hennar skerðast frá því sem áður var heimilt eða að hún muni rýrna svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður á sá sem sýnt getur fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði eða að hann leysi fasteignina til sín. 
Samkvæmt þessu er bent á að eigendur fasteigna eiga aðeins rétt á bótum vegna sannanlegs tjóns sem verður á eign þeirra við gildistöku skipulags. Bent er á að hér kemur til skoðunar hvort að um starfsemi og grenndaráhrif sé að ræða sem eru mun meiri en svo að íbúar og eigendur fasteigna á landbúnaðarsvæðum þurfa almennt að sætta sig við. Þá verður einnig að taka fullt tillit til þeirrar takmörkunar sem þegar er orðin á nýtingu á landi nágranna vegna eldri húsa að Mön. Sú takmörkun átti sér þegar stað við gildistöku 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. 


3. Framkominn athugasemd um meint brot gegn meðalhófsreglu.
Stutt samantekt athugasemda:
Í athugasemd Lex lögmannstofu er á því byggt að skipulagið brjóti gegn 12. gr. stjórnsýslulaga um meðalhóf. Skv. reglunni skal íþyngjandi ákvörðun aðeins tekin ef lögmætu markmiði sem stefnt er að verður ekki náð með öðrum hætti. Vísað er til þess að nóg landsvæði sé innan jarðarinnar Ása til að koma mannvirkjum fyrir án þess að það hafi jafn mikil áhrif á nágranna. Vísað er til dóms Hæstaréttar í máli nr. 425/2008.


Umsögn sveitarstjórnarmanna: 
Sveitarstjórn tekur undir umsögn Landslaga frá 13. ágúst sl. og bendir á að ákvörðun um samþykki skipulagsáætlunar er ekki stjórnsýsluákvörðun í eðli sínu og því gilda stjórnsýslulögin ekki beint. Dómstólar hafa hins vegar litið svo á að við málsmeðferð mála innan stjórnsýslunnar, jafnvel þó ekki sé um stjórnsýsluákvörðun að ræða, beri að taka mið af meginreglum laganna. Þá gilda um slík mál meginreglur stjórnsýsluréttarins þ.m.t. um meðalhóf.  
Umsækjendur hafa upplýst að staðsetning mannvirkjanna byggi á mögulegum samnýtingaráformum við minkabúið að Mön sem staðsett sé á næstu lóð. Þessi samnýtingaráform séu forsenda rekstursins. Að Mön er t.d. rekin skinnaverkun og hafa umsækjendur lýst því yfir að þeir muni fá skinn sín verkuð þar. Það styttir vegalengdir vegna flutnings. Þá eru einnig uppi áform um samnýtingu á hauggeymslum en það myndi draga úr byggingarmagni á svæðinu. Umsækjendur hafa einnig tiltekið að allt eftirlit með loðdýrabúunum verður einfaldara. Þá sé að auki ekki auðvelt að finna fyrirhuguðu búi betri stað í landi Ása m.a. vegna klettabelta, mýrarsvæða og vatnsbóla. Ljóst sé að bygging og rekstur mannvirkjana yrði mun dýrari á öðrum stöðum á landinu.

Í umsögn Landslaga frá 13. ágúst 2012 var bent á að eðlilegt væri að sveitarfélagið aflaði frekari upplýsinga frá umsækjendum enda lægju ekki fyrir frekari gögn frá þeim. Sveitarfélagið bendir á að með bréfi dags. 27. ágúst 2012 gáfu umsækjendur álit sitt á fyrirliggjandi gögnum málsins. Þá barst einnig bréf frá lögmanni umsækjenda dags. 29. ágúst 2012.  Því er hér um að ræða ný gögn sem ekki lágu fyrir við gerð umsagnar Landslaga frá 13. ágúst 2012.

Með þessu telja þeir sem standa að þessari bókun að sveitarfélagið hafa uppfyllt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins.  
Með framangreindum gögnum telja undirritaðir sveitarstjórnarmenn að umsækjendur hafi gefið sveitarfélaginu viðhlítandi svör við nánar tilgreindum atriðum í umsögn Landslaga frá 13. ágúst 2012 sem Skipulagsstofnun tiltekur í bréfi sínu frá 1. október sl.

 Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum telja undirritaðir sveitarstjórnarmenn að samþykkt deiliskipulagsins brjóti ekki í bága við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, né þá 72. gr. stjórnarskrár.

4. Framkominn athugasemd um meint brot gegn rannsóknarreglu.
Stutt samantekt athugasemda:
Í athugasemd Lex lögmannstofu er á því byggt að skipulagið brjóti gegn 10. gr. stjórnsýslulaga um rannsókn máls. Í því sambandi er m.a. vísað til umsagnar Landslaga frá 4. maí sl. Telur Lex að tvö grundvallaratriði málsins séu ekki upplýst þ.e. stærð búsins og áhrifasvæði.
Umsögn undirritaðra sveitarstjórnarmanna : 
Undirritaðir sveitarstjórnarmenn taka undir umsögn Landslaga frá 13. ágúst sl. og bendir á að ákvörðun um samþykki skipulagsáætlunar er ekki stjórnsýsluákvörðun í eðli sínu og því gilda stjórnsýslulögin ekki beint.

Dómstólar hafa hins vegar litið svo á að við málsmeðferð mála innan stjórnsýslunnar, jafnvel þó ekki sé um stjórnsýsluákvörðun að ræða, beri að taka mið af meginreglum laganna. Þá gilda um slík mál meginreglur stjórnsýsluréttarins þ.m.t. um rannsókn mála. 

Í umsögn Landslaga frá 13. ágúst 2012 var bent á að eðlilegt væri að sveitarfélagið aflaði frekari upplýsinga frá umsækjendum enda lægju ekki fyrir frekari gögn frá þeim. Sveitarfélagið bendir á að með bréfi dags. 27. ágúst 2012 gáfu umsækjendur álit sitt á fyrirliggjandi gögnum málsins. Þá barst einnig bréf frá lögmanni umsækjenda dags. 29. ágúst 2012.  Því er hér um að ræða ný gögn sem ekki lágu fyrir við gerð umsagnar Landslaga frá 13. ágúst 2012. Með þessu telja þeir sem standa að þessari bókun að sveitarfélagið hafa uppfyllt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins.  
Að öðru leiti er tekið undir umsögn Landslaga frá 13. ágúst sl. en undirritaðir sveitarstjórnarmenn telja ekki rétt að ekki liggi fyrir upplýsingar um stærð búsins. Í greinargerð skipulagsins kemur skýrt fram að búið verði fyrir um 4.000 læður. 


5. Framkominn athugasemd um að fyrri stækkanir á loðdýrabúinu að Mön hafi ekki verið lögmætar.

Stutt samantekt athugasemda:
Í athugasemdum, einkum athugasemd Lex lögmannstofu, er vísað til þess að stækkanir á loðdýrabúinu að Mön árið 1998, 2000 og 2011 hafi verið ólögmætar. Einkum er bent á stækkunina árið 2011. Af þessum ástæðum verði ekki byggt á því að þegar liggi fyrir skerðing á nágrannajörðum. Áskilja aðilar sér allan rétt til þess að hafa uppi kröfu um brottflutning þeirra mannvirkja.


Umsögn sveitarstjórnarmanna: 
Undirritaðir sveitarstjórnarmenn taka undir umsögn Landslaga frá 13. ágúst sl. og bendir á að ljóst hefði mátt vera að þegar hafinn var rekstur minkabúsins að Mön lagði það strax takmörk á nýtingu nágrannajarða m.t.t. 500 m reglunnar. Hins vegar telur sveitarfélagið að umræddar stækkanir þess bús hafi ekki stækkað það svæði að neinu marki. 
Undirritaðir sveitarstjórnarmenn telja að sérstakt álitamál sé hins vegar að skoða lögmæti einstakra stækkana búsins að Mön og grenndaráhrif þeirra. Á meðan þau leyfi hafa ekki verið felld úr gildi, verður að ganga út frá þeim sem gildum leyfum. 
Að öðru leyti er vísað til fyrri bókunar sveitarstjórnar um málið frá 4. september 2012.
Neðangreindir sveitarstjórnarmenn leggja til að þeim aðilum sem gerðu athugasemdir verði send svarbréf þar sem vísað verður í bókun þessa.“
Jón Vilmundarson, Harpa Dís Harðardóttir, Björgvin Skafti Bjarnason.

 

Gunnar Örn Marteinsson lagði fram eftirfarandi bókun vegna málsins:

Eins og sveitarstjórn er kunnugt um var lögmaður sveitarfélagsins Ívar Pálsson farinn að vinna að því að svara athugasemdum Skipulagsstofnunar, en eins og allir sveitarstjórnarmenn og sveitarstjóri vita var búið að samþykkja að hann væri lögmaður sveitarfélagsins í þessu máli. Sú einkennilega staða kom hinsvegar upp að einhverjir sveitarstjórnarmenn taka sig til og óska eftir því að hann hætti afskiptum af málinu án þess svo mikið sem ræða það við oddvita eða sveitarstjóra fyrr en að loknum þeim gjörningi.


Einnig  tóku þessir sveitarstjórnamenn sig til og réðu annan lögmann til verksins, að mínu áliti hljóta viðkomandi sveitarstjórnamenn að greiða þann kostnað úr eigin vasa því ekki er möguleiki á að einstakir sveitarstjórnarmenn geti ákveðið að skipta um lögmann fyrir sveitarfélagið á óformlegum fundi jafnvel þó meirihluti sveitarstjórnar sé staddur á þeim fundi.


Undirritaður óskar eftir því að minnisblað frá Lögmönnum Suðurlands vegna þessa máls dagsett 4.nóvember 2012 verði sent með gögnum til Skipulagsstofnunar en í niðurlagi þess stendur eftirfarandi:.

„Lögmenn Suðurlands benda á að skipulagsyfirvöldum ber ekki skylda til þess að taka athugasemdir íbúa til greina að þeim áskilnaði uppfylltum að rökstutt sé á fullnægjandi hátt hvers vegna ekki er hægt að verða við þeim“ 
Get ekki séð að meirihluti sveitarstjórnar hafi uppfyllt þennan rökstuðning. 
Í minnisblaðinu stendur einnig:
„Lögmenn Suðurlands benda á að eigendur fasteigna eiga aðeins rétt á bótum vegna sannarlegs tjóns sem verður á eign þeirra við gildistöku skipulags. Undirritaður tekur ekki afstöðu til hvort um sannanlegt tjón getur verið að ræða í því tilviki sem hér um ræðir“ 
Tek heilshugar undir þetta álit lögmannsins og bendi enn og aftur á þá hættu að samþykkt skipulagsins kunni að valda sveitarfélaginu bótaskyldu.  Að öðru leiti vísa ég til bókunar minnar á fundi sveitarstjórnar þann 4. september 2012.
Gunnar Örn Marteinsson

Jón Vilmundarson, Harpa Dís Harðardóttir og Björgvin skafti Bjarnason lögðu fram eftirfarandi tillögu.


Ívar Pálsson var ráðinn til ráðgjafar í skipulagsmálum varðandi aðal- og deiliskipulag Ása. Í því máli komu fram athugasemdir frá Skipulagsstofnun sem meirihluti sveitarstjórnar og lögmaður voru ekki sammála um hvernig ætti að svara. Því ákvað meirihlutinn sem sem stóð að samþykkt skipulagsins að leita álits Lögmanna á Suðurlandi en þeir hafa áður starfað fyrir sveitarfélagið og vel kunnugir skipulagsmálum.  Leggjum við því til að Lögmenn Suðurlandi fari með þetta tiltekna mál fyrir hönd sveitarfélagsins. 
Harpa Dís Harðardóttir, Skafti Bjarnason og Jón Vilmundarson


27. Njörður Tómasson frá Símanum mætti á fundinn. Hann greindi sveitarstjórn frá því að Síminn væri tilbúinn til að koma upp búnaði í sveitarfélaginu til að geta boðið fjarskiptaþjónustu tengda ljósleiðaranum. Hann staðfesti að sú þjónusta verði boðin á sama verði og til dæmis á höfuðborgarsvæðinu. Gæði þjónustunnar verði einnig sambærileg.


Fundi slitið kl 18:53.


Næsti fundur ákveðinn 20.  nóvember.