Sveitarstjórn

44. fundur 07. maí 2013 kl. 13:00

44. fundur í sveitarstjórn Skeiða-og Gnúpverjahrepps í Árnesi þriðjudaginn  07. maí  2013  kl. 13:00.

Mætt til fundar : Jón Vilmundarson,  Oddur Guðni Bjarnason, Björgvin Skafti Bjarnason, Harpa Dís Harðardóttir og Sigrún Guðlaugsdóttir en hún mætti í forföllum Gunnars Arnar Marteinssonar.  Kristófer A. Tómasson sveitarstjóri ritaði fundargerð. Björgvin Skafti oddviti setti fund og spurðist fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboð en svo reyndist ekki vera.


Oddviti kom með tillögu um breytingar á áður boðaðri dagskrá.


Liður 15 erindi vegna Þjórsárstofu. Liður 16 fundargerð umhverfisnefndar.
Hann óskaði eftir að þessum málum yrði bætt á áður boðaða dagskrá.

Auk þess kynnti hann að Torfi R. Sigurðsson lögmaður hjá Lögmönnum Suðurlandi væri mættur til fundar. Hans var óskað á fundinn vegna mála nr. 1 og 2 á dagskrá fundarins. Ekki komu fram athugasemdar við þessar breytingar. Auk þess höfðu boðað komu sína Ólafur Jóhannsson og Anna Sigríður Valdimarsdóttir frá Stóra-Núpi, Finnbogi Jóhannsson Minni-Mástungu og Viðar Gunngeirsson Ásum.

 Sveitarstjórn samþykkti að leyfa upptöku á umræðum um mál 1 og 2.


1. Úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála um deiliskipulagstillögu að minkabúi að Ásum.
Torfi Sigurðsson HRL tók til máls og fór yfir úrskurðinn. Hann lagði áherslu á að skipulagstillagan hefði verið felld úr gildi ásamt byggingaleyfi. Hann gat þess hvaða þýðingu það hefði.  Tvennt væri í stöðunni. Annað hvort að láta staðar numið og málinu lokið. Ef málið yrði tekið upp aftur yrði að svara ákveðnum atriðum með því að fá utanaðkomandi óháða aðila til að fjalla um atriði sem í úrskurðinum var bent á að rannsaka þyrfti betur. Um er að ræða staðsetningu og lýsingu á því hvaða áhrif bygging hússins hefur og hvort aðrir staðir komi til greina.  Æskilegt væri að fá til dæmis verkfræðing til mats á áðurnefndu. Auk þess væri jafnvel æskilegt að meta lyktaráhrif að mati Torfa.
Sveitarstjórn myndi í framhaldi hafa þann möguleika að taka skipulagið aftur fyrir til samþykktar. Ekki væri fundið að málsmeðferðinni í úrskurðinum. Áhersla var lögð á að vantað hefði á að áðurnefndum atriðum hefði verið svarað. Torfi kvaðst ekki taka afstöðu til úrskurðarins. Algengt væri að óskað væri eftir ítarlegri gögnum í málum sem þessum en það væri misjafnt eftir eðli mála. Í þessu tilfelli væri um óvenjulega byggingu að ræða.

Benti á að málefnalega afstaðan væri í höndum sveitarstjórnar. Ef sveitarstjórn ákveður að taka upp málið aftur ætti ákvörðunin að verða meira upplýst en hún var þegar málið var afgreitt á síðasta ári.


Oddviti lagði fram svohljóðandi bókun:
Úrskurður í máli nr. 131/2012, frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála-
 Kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og  Gnúpverjahrepps frá 4. september 2012 um að samþykkja deiliskipulag fyrir minkabú á  spildu úr landi jarðarinnar Ása í nefndum hreppi.  Kærendur eru sjö eigendur jarðarinnar Stóra- Núps  og Sjálfseignarstofnunin og Guðfinnur Jakobsson Skaftholti.
,,Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá  4. september 2012 um að samþykkja deiliskipulag fyrir minkabú á spildu úr landi jarðarinnar Ása í nefndum hreppi.“

Úrskurður nefndarinnar byggir úrskurð sinn á reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002, sem hún gerir eftirfarandi athugasemd við: 
,,Úrskurðarnefndin hefur ekki fundið skýringar á tilurð reglu þessarar eða á því hvaða hagsmuni henni var ætlað að verja. Nefndin metur hins vegar ekki stjórnskipulegt gildi hennar og verður því til hennar litið við úrlausn málsins.“  
Einnig  tiltekur nefndin 10.  og 12. grein stjórnsýslulaga.
Sveitarstjórn metur það svo að ÚUA hafi fellt ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá  4. september 2012  úr gildi  vegna þess að rökstuðningur var ekki nægur fyrir ákvörðuninni.
Lögmaður íbúa Ása og eigenda  Steinkers ehf  óskar eftir því í bréfi dags.30.04.2013. ,,Að bætt verði úr ágöllum á málsmeðferðinni  og að athugun lokinni verði eftir atvikum samþykkt nýtt deiliskipulag fyrir fyrirhugað minkabú á jörðinni."

Sveitarstjórn mun því fá þar til bæra aðila til að meta hvar og hvort staðsetja megi fyrirhugað minkabú í landi Ása  áður en ákvörðun verður tekin um framhaldið.
Samþykkt samhljóða.

 

2. Erindi eigenda Stóra-Núps vegna skipulagstillögu að minkabúi að Ásum um að sveitarfélagið greiði þann lögfræðikostnað sem þau hafa lagt út í vegna málsins.
Torfi kvað ekki æskilegt að gefa álit án þess að málið yrði skoðað nánar.
Það væri varhugavert upp á fordæmisgildi að gera. Í því máli sem vitnað væri til væru aðstæður öðruvísi en í því tilfelli sem hæstiréttur hefur dæmt í nr. 444/2008.

Málinu var hafnað af sveitarstjórn á þessu stigi og var Torfa lögmanni og sveitarstjóra falið að skila greinargerð um málið fyrir næsta sveitarstjórnarfund. 

 
3. Ársreikningur sveitarfélagsins 2012. Seinni umræða.
Ársreikningur samþykktur samhljóða.


4. Stækkun friðlands í Þjórsárverum.
Sveitarstjórn Skeiða og Gnúpverjahrepps samþykkir fyrir sitt leyti friðlýsingarskilmálana og auglýsingu þeirra.
Oddviti lagði fram eftirfarandi bókun:
Sveitarstjórn Skeiða og Gnúpverjahrepps fagnar því að áratugalangt baráttumál  sveitunga okkar og fleiri um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum er að verða að veruleika og bendir á að fylgja þarf fast eftir að upplýsingar og eftirlit með Þjórsárverunum verði eins og lagt er upp með. Samþykkt samhljóða.


5. Umsókn um rekstur gististaðar að Hraunvöllum. 
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við umsóknina.


6. Erindi frá sóknarnefnd Stóra-Núpskirkju.
Kristjana Gestsdóttir útskýrði erindið er varðaði endurbætur kirkjugarðsins við Stóra-Núpskirkju. Samþykkt að veita til verksins allt að 1,5 mkr og sveitarstjóra og oddvita falið að fylgjast með framvindu verksins.


7. Beiðni um styrk til Skólahreysti. Beiðni samþykkt samhljóða að veita 50.000 kr styrk.


8. Tillaga almannaverndarnefndar  um uppbyggingu stjórnstöðva. Framkomin tillaga samþykkt og sveitarstjóra falið að undirrita samninginn um verkefnið.


9. Samningur SASS og Skeiða- og Gnúpverjahrepps um almenningssamgöngur. Samþykkt að fela oddvita og sveitarstjóra að ganga frá og undirrita samninginn fyrir hönd sveitarfélagsins.


10. Tillaga um fulltrúa í rýnihóp um safnastefnu í Uppsveitum Árnessýslu. Samþykkt samhljóða að tilnefna Odd Bjarnason í rýnihópinn og Sigrúnu Guðlaugsdóttur til vara.


11.  Erindi frá Landsvirkjun um framkvæmdir í Kálfá. Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti fyrirhugaðar framkvæmdir.


12.  58. Fundur Skipulags og bygginganefndar. Mál nr. 2,5,11,28,29 og 30   þarfnast staðfestingar.

 
Mál nr. 2: Fyrirspurn_Húsatóftir 1C – breytt notkun lóðar
Til viðbótar við gögn sem tekin voru fyrir í nefndinni liggur nú fyrir bréf aðliggjandi íbúðarhúsaeigenda dags. 28. apríl 2013 um að hann sé samþykkur málinu.Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar um að heimila breytingu á hesthúsi á lóðinni í íbúðarhús með fyrirvara um að það samræmis gildandi byggingarreglugerð.

Mál nr. 5: Frkvl. Kálfá - stíflumannvirki
Til viðbótar við gögn sem tekin voru fyrir í nefndinni liggur nú fyrir leyfi eigenda Miðhúsa 1 og 2 dags. 23. apríl 2013 auk leyfis Fiskistofu dags. 24. apríl 2013. Sveitarstjórn samþykkir að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir byggingu seiðagildru og stíflu fyrir fiskiteljara við Kálfa sbr. umsókn dags. 17. apríl 2013.

 

Mál nr. 9: Afgreiðslur byggingarfulltrúa
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 20. mars til 19. apríl 2013.

Mál nr. 11: LB_Norðurgarður – ny 32.685 fm lóð
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar og frestar málinu vegna ófullnægjandi gagna.

Mál nr. 28: DSK Húsatóftir 2 lnr, 166472
Sveitarstjórn gerir ekki athugsemd við afreiðslu nefndarinnar og samþykkir deiliskipulagið að nýju.

 

Mál nr. 29: Dskbr. Réttarholt og Árnes
Sveitarstjórn gerir ekki athugsemd við afreiðslu nefndarinnar og samþykkir breytinguna skv. 2. Mgr. 43. Gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara umsögn Vegagerðarinnar og niðurstöðu grenndarkynningar.

 

Mál nr. 30: Þjóðlendur_Skeiða- og Gnúpv.hr. – stofnun lands
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar og samþykkir að þjóðlendurnar Flóa- og Skeiðamannaafréttur, Búrfells- og Skeljafellsland, Landgræðslusvæði Skógræktar ríkisins í Þjórsárdal og Gnúpverjaafréttur verði stofnaðar.

 

13. Samningur milli Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Skógræktar ríkisins annars vegnar og Hreggnasa ehf hins vegar. Samningur Staðfestur án athugasemda.


14. Framkvæmdir við gámasvæði við Árnes og fráveitu í Brautarholti. Lagðar voru fram áætlaðar kostnaðartölur þar að lútandi. 
Samþykkt að bjóða út framkvæmdir við gámsvæði neðan við Árnes ásamt gámaplani. Samþykkt að semja án útboðs við verktaka um framkvæmdir við fráveitu í Brautarholti. Sveitarstjóra falið að halda utan um verkefnin.


15. Þjórsárstofa. Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra að ráða starfsmann  í hlutastarf   við veitingar    í Þjórsárstofu í sumarið 2013 í samráði við Landsvirkjun.


16. Fundargerð umhverfisnefndar. Fundargerð lögð fram og samþykkt.

 

 

Mál til kynningar

 

A. Fundargerð 149 fundar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.
B. Markaðsskrifstofa Suðurlands. Framvinduskýrsla.
C. Fundur stjórnar SASS nr. 466.
D. Fundargerð 805 fundar stjórnar Sambands Íslenskra sveitarfélaga.
E. Tillaga að skipuriti SASS.
F. Starfsleyfi í Árnesi.
G. Fundargerð 2.fundar fagráðs BÁ.
H. Ytra mat á grunnskólum.
I. Rammaskipulag í Þjórsárdal.
J. Skýrsla sveitarstjóra.
K. Niðurstaða stefnumótunarhóps SASS.
L. Orlof Húsmæðra.
M. Fundargerð NOS nefndar.
N. Úthlutun úr Fjallvegsjóði.



Fundi slitið kl  16:13.


Næsti fundur ákveðinn 4. júní næstkomandi.