Sveitarstjórn

19. fundur 20. september 2015 kl. 10:00

19. fundur í sveitarstjórn Skeiða-og Gnúpverjahrepps í Árnesi sunnudaginn  20. september 2015  kl. 10:00.

Mætt til fundar: Björgvin Skafti Bjarnason, Einar Bjarnason, Meike Witt,  Halla Sigríðar Bjarnadóttir og Gunnar Örn Marteinsson.  Sveitarstjórn samþykkir að Kristjana Heyden Gestsdóttir riti fundargerð fyrir Kristófer A. Tómasson sveitarstjóra sem er í leyfi. Oddviti spurðist fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið.  Svo reyndist ekki vera.

Dagskrá:

1.       Tekið til afgreiðslu bréf frá Skipulagsstofnun með umsagnarbeiðni um endurskoðun umhverfismats vegna Hvammsvirkjunar.  Málinu var frestað á síðasta sveitarstjórnarfundi.

Tillaga lögð fram:

Sveitarstjórn samþykkir að ekki þurfi að fara fram nýtt umhverfismat fyrir Hvammsvirkjun.

Samþykkir: Gunnar Örn Marteinsson, Halla Sigríður Bjarnadóttir, Einar Bjarnason.

Á móti: Björgvin Skafti Bjarnason og Meike Witt.

 

Eftirfarandi bókun lögð fram af Gunnari Erni Marteinssyni og Höllu Sigríði Bjarnadóttur.

Ekki hafa orðið þær breytingar á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar að ástæða sé til að endurskoða umherfismat frá apríl 2003 þar sem fjallað er um Hvammsvirkjun.

Greinargerð.

Umfang framkvæmdarinnar hefur heldur minnkað frá því matið var unnið eins og fram kemur í rýni á mati á umhverfisáhrifum unnið af Eflu verkfræðistofu. Einnig er rétt að benda á að frá því að matið var unnið hefur verið unnið með landeigendum á áhrifasvæði fyrirhugaðra framkvæmda að því að áhrif hennar verði eins lítill og nokkur kostur er, þó svo að augljóst sé að áhrifin verða alltaf einhver. Rétt er að benda á að landeigendur hafa samið við Landsvirkjun vegna þess og fá greiddar bætur vegna þess og því verður að telja að viðkomandi sætti sig við framkvæmdina, að öðrum kosti hefðu þau varla samið um málið og þegið bætur fyrir. 

Talsvert hefur verið fjallað um áhrif framkvæmdarinnar á laxastofninn í Þjórsá en lax tók að ganga á svæði fyrirhugaðrar virkjunar eftir að laxastigi var gerður við Búða árið 1991. Það má því deila um hversu náttúrulegur sá stofn er. Hvað sem því líður er nauðsynlegt að reyna að tryggja að laxfiskur haldi áfram að ganga á svæðið og í því sambandi hafa verið kynntar mótvægisaðgerðir. Nauðsynlegt er að tryggja að vel verði fylgst með hvernig þær mótvægisaðgerðir virka enda er þetta nokkur prófraun á ágæti þeirra.

Annað atriði sem talsvert hefur verið rætt um er neikvæð áhrif framkvæmdarinnar á ferðaþjónustu. Ljóst er að fyrirhuguð brúargerð yfir Þjórsá samhliða framkvæmdinni mun hafa mjög jákvæð áhrif á ferðaþjónustu auk fleiri jákvæðra þátta á svæðinu. Hinsvegar er ljóst að umfang ferðaþjónustu er mun meiri en þegar matskýrslan var gerð og ekki hægt að miða við umferðatölur á þjórsárdalsvegi í því samhengi eins og Efla gerir í sinni rýniskýrslu. Að okkar mati mun fyrirhuguð Hvammsvirkjun ekki hafa veruleg neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu þó að einhverjir ferðaþjónustuaðilar hafi nýtt sér svæðið í sinni starfsemi  í meira mæli en þegar skýrslan var gerð.    

það er talsverð vinna fyrir sveitarstjórnarfólk að rýna í öll þau gögn sem til eru varðandi þetta mál og almennir sveitarstjórnarfulltrúar hafa ekki fjármagn til að kaupa sér sérfræðiaðstoð í slíkum málum, en við yfirferð okkar um málið sjáum við ekkert sem stangast á við álit okkar í málinu. Við treystum Skipulagsstofnun til að taka faglega ákvörðun í málinu og munum vinna í samræmi við álit hennar.

 

Álit Björgvins Skafta Bjarnasonar og Meike Witt  á því hvort endurskoða eigi mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar. (Virkjun við Núp dags. Apríl 2003)

Erindi Skipulagsstofnunar.

Skipulagsstofnun óskar álits Skeiða – og Gnúpverjahrepps á því hvort endurskoða skuli matsskýrslu Landsvirkjunar vegna Hvammsvirkjunar á grundvelli 12. Gr laga nr.106/2000 m. síðari breytingum. Hvort forsendur hafi breyst verulega frá því að álitið lá fyrir, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, breytinga á alþjóðlegum skuldbindingum eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina      .

Óskað er eftir að Skeiða- og Gnúpverjahreppur kynni sér skýrslu Eflu verkfræðistofu : „Hvammsvirkjun, 93 mv. Rýni á mati á umhverfisáhrifum“, auk þess eftir atvikum gögn sem nálgast má á vef Landsvirkjunar sem fjallar um Hvammsvirkjun þar sem m.a. er að finna matsskýrslu Virkjunar við Núp dags. Apríl 2003 þar sem fjallað er um Hvammsvirkjun.“

Forsendur

Þegar ljóst var að Hvammsvirkjun yrði færð úr biðflokki í nýtingarflokk sumarið 2015 höfðu fulltrúar Landsvirkjunar samband við leyfisveitendur framkvæmda vegna virkjunarinnar. Sveitarstjórar viðkomandi sveitarfélaga, Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps sendu erindi til Skipulagsstofnunar þar sem óskað er álits á því hvort umrædd virkjun þurfi að fara í umhverfismat.

Það er tiltölulega sjaldgæft að skýrslur um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda verði svo gamlar að þær þurfi endurskoðunar við. Því er ekki ljóst hvernig meta eigi hvort endurskoðunar er þörf.

Þar sem Skipulagsstofnun óskar m.a.eftir áliti Skeiða- og Gnúpverjahrepps  á því hvort endurskoða skuli matsskýrslu Landsvirkjunar vegna Hvammsvirkjunar á grundvelli 12. Gr laga nr.106/2000 m. síðari breytingum, mun orðið við því.

Rýniskýrsla Eflu

Fyrir liggur rýniskýrsla Eflu verkfræðistofu á matsskýrslu Landsvirkjunar vegna Hvammsvirkjunar. Niðurstaða hennar er að ekki þurfi að taka upp mat á umhverfisáhrifum.

Í 12 gr. áðurnefndra laga er áhersla lögð á hvort forsendur hafi breyst frá samþykkt umhverfismats. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum er fyrsta skrefið að leggja fram matsáætlun. Í  henni koma fram þeir þættir sem leggja skuli mat á. 

Skýrsla Eflu byggir hins vegar mest á því hvort þau atriði sem tiltekin eru í skýrslunni passi við núverandi umhverfi.

Breytingar frá því að umhverfismat var lagt fram.

Frá því að umhverfismat Hvammsvirkjunar var lagt fram hefur verið gerður  fjöldi rannsókna á lífríki Þjórsár.

Aðferðir hafa breyst við undirbúning vegna mats á umhverfisáhrifum, ríkari áhersla lögð á að kanna félagsleg áhrif .

Reynsla er komin á umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar.

Ferðaþjónusta er orðin margfalt stærri atvinnugrein og mun verða en stærri. Meta þarf hagsmuni í því ljósi milli ferðaþjónustu og orkuvinnslu.

Ýmsar breytingar á lögum tengdum umhverfis og skipulagsmálum sbr. 1. Grein laga um umhverfismat en það er ekki fyrr en eftir að 2002 að það er markmið með lögunum að „að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar.“

Einnig eru ný Skipulagslög, mannvirkjalög lög um náttúruvernd og fleiri.

Niðurstaða

Björgvin Skafti og Meike Witt  treysta  því að Skipulagsstofnun taki faglega afstöðu um endurskoðun mats á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar.

Margt bendir á að endurskoða þurfi hluta matsins einkum vegna þess að margfalt meiri vitneskja er fyrir hendi í dag vegna rannsókna til dæmis á lífríki árinnar.

Það hlýtur að vera kappsmál framkvæmdaraðila að sem best sé staðið að öllum undirbúningi og að rannsóknir undanfarandi ára séu nýttar til en betra umhverfismats. Eða eins og segir í markmiðum  laganna. „að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar.“

Björgvin Skafti Bjarnason, Meike Witt.

Fundi slitið kl  11:20.