Sveitarstjórn

75. fundur 16. febrúar 2022 kl. 14:00
Nefndarmenn
  • Björgvin Skafti Bjarnason
  • oddviti
  • Anna Sigríður Valdimarsdóttir
  • Einar Bjarnason
  • Ingvar Hjálmarsson
  • Ástráður Unnar Sigurðsson í fjarveru Matthíasar Bjarnasonar sem boðaði forföll
Starfsmenn
  • Auk þess sat Sylvía Karen Heimisdóttir sveitarstjóri

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera

  1. Umsókn um skólavist utan sveitarfélagsins

Umsókn barst frá foreldri um vistun barns í leikskóla utan sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn synjar erindinu.

  1. Samþykktir sveitarstjórnar - seinni umræða

Samþykkt um stjórn tekin til seinni umræðu. Breytingarnar snúa að heimild sveitarstjórnar, nefnda og ráða til að halda fjarfundi, framsals- og valdheimildir til byggingarfulltrúa Umhverfis- og tæknisviðs uppsveita, stofnun seyrustjórnunar, stofnun samráðshóps um málefni aldraðra og stofnun öldungaráðs. Lagt er til að bætt verði við skipan fulltrúa á fundi Afréttamálafélags Flóa og Skeiða.

Sveitarstjórn samþykkir með 3 atkvæðum framlagða tillögu að breytingum á samþykktum um stjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps og felur sveitarstjóra að koma samþykkt um stjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps til auglýsingar.

Ingvar Hjálmarsson samþykkir breytingar að samþykkt um stjórn að 41. gr. undanskilinni með vísan til fyrri bókana um fjölda nefndarmanna í nefndum og ráðum.

Anna Sigríður Valdimarsdóttir situr hjá við afgreiðslu samþykktarinnar og leggur fram eftirfarandi bókun:

„Ég sit hjá vegna þess að ég get ekki samþykkt ákveðin formsatriði í fundarsköpum sem mér þykja börn síns tíma. Auk þess get ég ekki samþykkt 41. gr. um fjölda nefndarmanna í fastanefndum og vísa í því samhengi til fyrri bókana um þau mál.“

 

  1. Hestamannafélag Uppsveita  - heimsókn

Svavar Jón Bjarnason og Ólafur Gunnarsson f.h. nýstofnaðs sameiginlegs Hestamannafélags Uppsveita komu til fundar við sveitarstjórn og kynntu nýstofnað félag og metnaðarfull markmið félagsins til næstu ára. M.a. er markmiðið að koma hestamennsku inn í grunnskólana þannig að börn fái tækifæri til að prófa og upplifa íþróttina án þess að þurfa að leggja út í mikinn kostnað í upphafi. Fóru þeir þess á leit við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að áframhaldandi samstarf yrði um starfsemina líkt og var áður við hestamannafélagið Smára.

Sveitarstjórn fagnar kynningunni á hinu nýstofnaða Hestamannafélagi og markmiðum þess.

4. Fjárhagsáætlun 2022 - Yfirdráttarheimild

Sveitarstjóri lagði fram sjóðstreymisáætlun fyrir næstu fimm mánuði. Gert er ráð fyrir framkvæmdum á tímanum, m.v. við gatnagerð og stofnlagnir. Óskað er eftir því að yfirdráttarheimild verði lækkuð úr 60.000.000 kr. í 50.000.000 kr. og hún framlengd til 15. júní nk.

Sveitarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum heimild til sveitarstjóra til að óska eftir áframhaldandi yfirdráttarheimilt að fjárhæð 50.000.000 kr. til 20. maí nk.

 

5. Búrfellsnáma. Útboð á vikri

Oddviti lagði fram verðkannanir frá verkfræðistofunum Mannvit, Eflu og Verkís v. útboðs á vikri úr Búrfellsnámu. Fyrirhugað er að bjóða út vinnslu á vikri úr námunni. Núverandi umhverfismat rennur út í lok árs 2022 og gera þarf nýtt umhverfismat til næstu ára. Að mati loknu verður þá hægt að bjóða svæðið út. Að auki var óskað eftir verðkönnun frá verkfræðistofunum í útboð v. þess vikurs sem heimilt er að taka úr námunni á árinu 2022.

Efla lagði fram verðkönnun við gerð umhverfismats og útboðs að fjárhæð 9.500.000 kr. Mannvit lagði fram verðkönnun við gerð umhverfismats og útboð að fjárhæð 10.700.000 kr. Verkís lagði fram verðkönnun við gerð umhverfismats og útboðs sem nam um 500 klst. Gert er ráð fyrir að tímakostnaður sé á bilinu 13.000 kr. – 20.000 kr. og verð til Verkís því á bilinu 6.500.000 kr. – 10.000.000 kr.  Gert er ráð fyrir að hægt sé að taka um 140.000 m3 árið 2022 sem myndi mögulega skila sveitarfélaginu að lámarki 18.000.000 kr. í tekjur árið 2022. Oddviti leggur til að Efla verði fengin til að bjóða út vinnslu á vikri fyrir árið 2022 og í framhaldinu að bjóða út vinnslu á vikri til lengri tíma. Sá aðili sem fengi vinnsluréttinn til lengri tíma beri ábyrgð á umhverfismati á námunni.

Sveitarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum að bjóða vinnslurétt í námunni í tveimur útboðum annars vegar fyrir árið 2022 og svo til lengri tíma og að umhverfismat verði á ábyrgð vinnsluaðilans. Jafnframt er samþykkt í sveitarstjórn með 5 atkvæðum að fá Eflu til að vinna að útboðsgögnum.    

 

6. Viðmiðunarreglur um snjómokstur

Sveitarstjóri lagði fram viðmiðunarreglur um snjómokstur í þéttbýli og dreifbýli.

Sveitarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum viðmiðunarreglur um snjómokstur.

 

7. Stofnun stýrihóps fyrir Barnvænt sveitarfélag

Á 67 fundi sveitarstjórnar hinn 15. september sl. var samþykkt að taka þátt í verkefnin u barnvæn sveitarfélaög. Sveitarstjóri leggur til að sveitarfélagið dragi sig út úr þátttöku í innleiðingu þessa verkefnis að þessu sinni þar sem stutt er eftir að kjörtímabilinu og að óskað verði eftir að tekið verði þátt í innleiðingarferlinu að ári liðnu.

Sveitarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum að sveitarfélagið dragi sig úr innleiðingarferli í verkefninu Barnvænu samfélag að þessu sinni. 

 

8. Hvammsvirkjun- umsögn veiðifélags Þjórsár

Lögð fram til kynningar umsögn veiðifélags Þjórsár um fyrirhugað virkjana- og framkvæmdaleyfi við Hvammsvirkjun.

 

9. Þjórsárdalsvegur – Vegvísir.

Lögð fram og kynnt tillaga frá Vilborgu Halldórsdóttur um gerð vegvísis í formi listaverks við gatnamót Skeiða- og Hrunamannavegar og Þjórsárdalsvegar.

      

10. Vegkafli á bökkum Kálfár- ályktun stjórnar

Lagt fram til kynningar og umræðu erindi sem sent var til Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra um færslu vegar á bökkum Kálfár. Nýverið varð alvarleg bílvelta skammt vestan við vegamót Gnúpverjavegar 325 og Mástunguvegar 329 þar sem fóðurbíll valt. Mikið mildi var að ekki urðu slys á fólki. Með nýjum veg mun umferð um hættulegar brekkur á þessu svæði leggjast af. Umferð þungaflutninga um svæðið eykst stöðugt ásamt þeirri slysahættu sem því fylgir.

Sveitarstjórn styður erindið og telur mikilvægt að gerðar verði breytingar á veginum til að auka umferðaröryggi íbúa sveitarfélagsins.

 

11. Umhverfis- og tæknisvið uppsveita. Fundargerð 233 fundar skipulagsnefndar

27. Löngudælaholt lóð 4 (L166656); umsókn um byggingarheimild; sumarhús - viðbygging - 2201078

       Fyrir liggur umsókn Þóris Guðmundssonar fyrir hönd Ágústs Jóhannessonar og Unnar Björnsdóttur, móttekin 28.01.2022, um byggingarheimild til að byggja 34,7 m2 við sumarbústað á sumarbústaðalandinu Löngudælaholt lóð 4 L166656 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Heildarstærð á sumarbústaði eftir stækkun verður 66,8 m2.

       Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

Sveitarstjórn samþykkir að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar.

                  

28. Flatir Réttarholt; Stækkun frístundasvæðis F27; Deiliskipulagsbreyting - 2005080

       Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar er varðar breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundasvæði F27 á Flötum í landi Réttarholts, eftir kynningu. Í breytingunni felst stækkun skipulagssvæðis og fjölgun lóða innan þess. Staðsetning á leik- og opnu svæði er breytt og skilgreind gönguleið. Skilmálar skipulagsins eru uppfærðir í heild sinni eftir breytingu þar sem m.a. er skilgreint nýtingarhlutfall lóða og byggingarheimildir.

       Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins verði samþykkt. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar breytingar á deiliskipulagi.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir að viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins verði samþykkt og að málið fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar breytingar á deiliskipulagi.

 

12. Samband sunnlenskra sveitarfélaga. Fundargerð 578. fundar stjórnar

Fundargerð lögð fram til kynningar

 

13. Samband íslenskra sveitarfélaga. Fundargerð 906. fundar stjórnar

Fundargerð lögð fram til kynningar

 

14. Lánasjóður sveitarfélags. Auglýsing eftir framboði til stjórnar

Lagt fram til kynningar.

 

15. Umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytið. Þingsályktunartillaga. Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða

Lagt fram til kynningar.

Anna Sigríður Valdimarsdóttr lagði fram eftirfarandi bókun:

„Sem lýðræðslega kjörin fulltrúi í Skeiða- og Gnúpverjarheppi mótmæli ég að virkjanahugmyndir í sveitarfélaginu séu í nýtingarflokki og tek undir þær fjölmörgu athugasemdir sem fram hafa komið frá almenningi og félagasamtökum í gegnum áratugina um neikvæð náttúrufars-, landslags- og samfélagsleg áhrif sem af þeim hlytust. Þá árétta ég að virkjanahugmyndirnar í neðri hluta Þjórsár byggja á tveggja áratuga gömlu umhverfismati og allt öðrum gildum sem voru í samfélaginu á þeim tíma sem það var unnið.“

 

16. Önnur mál löglega fram borin.

Umhverfisnefnd.

Anna Sigríður Valdimarsdóttir vakti máls á störfum umhverfisnefndar. Þrátt fyrir ítrekanir stjórnar sem og að árið 2021 voru nokkrum málum vísað til nefndarinnar hefur nefndin ekki fundað. Anna Sigríður Valdimarsdóttur lagði fram eftirfarandi bókun vegna starfa umhverfisnefndar.

„Umhverfisnefnd hefur ekki starfað sem skyldi undanfarin ár, a.m.k. ekki þannig að allri sveitarstjórn hafi verið kunnugt um það. Nefndin fór ágætlega af stað en hefur verið vanvirk stóran hluta kjörtímabilsins. Ýmsar skyldur fylgja setu í fastanefndum sveitarfélaga og er um umhverfisnefnd m.a. eru ákvæði í náttúruverndarlögum um árlegt samráð og upplýsingagjöf til Umhverfisstofnunar, sem hefur að mér vitandi ekki verið sinnt. Nokkrum málum hefur verið vísað til umfjöllunar í umhverfisnefnd á síðsta ári, án nokkurra viðbragða.

Minnihluti sveitarstjórnar hefur reynt að fá breytingar á umhverfisnefnd og hvatt fulltrúa meirihluta sveitarstjórnar sem jafnframt situr í nefndinni til að beita sér fyrir því að nefndin sinni skyldum sínum. Meirihluti sveitarstjórnar hefur tekið undir ýmis rök minnihlutans í þeim efnum en ekki brugðist við samkvæmt því. Fulltrúi minnihlutans í umhverfisnefnd hefur sömuleiðis lýst yfir áhuga á að leiða nefndina og kallað eftir að nefndin fundi og uppfylli skyldur sínar en því hefur ekki verið tekið. Það er mín skoðun að meirihluti sveitarstjórnar sé að bregðast skyldum sínum um að tryggja að umhverfisnefnd starfi samkvæmt þeim lögum og reglum sem um þær gilda.

Ingvar Hjálmarsson tekur undir bókun Önnu Sigríðar.

Meirihluti sveitarstjórnar tekur ábendingum Önnu Sigríðar alvarlega.

 

Fundi slitið kl. 16:55. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 2. mars, kl  14.00. í Árnesi.  

Gögn og fylgiskjöl: