Sveitarstjórn

76. fundur 02. mars 2022 kl. 14:00
Nefndarmenn
  • Björgvin Skafti Bjarnason
  • oddviti
  • Anna Sigríður Valdimarsdóttir
  • Einar Bjarnason
  • Ingvar Hjálmarsson
  • Matthías Bjarnason. 
Starfsmenn
  • Auk þess sat Sylvía Karen Heimisdóttir sveitarstjóri

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera
Ingvar Hjálmarsson boðaði seinkun í upphafi fundar og mætti kl 14.10

  1. Innri persónuverndarstefna

Innri persónuverndarstefna sveitarfélagsins lögð fram til samþykkar.

Sveitarstjórn samþykkir með 4 atkvæðum Innri persónuverndarstefnu sveitarfélagsins.

 

Ingvar mætti til fundar.

 

  1. Árnes ferðaþjónusta - Viðauki við samning

Sveitarstjóri lagði fram drög að viðaukum við annars vegar samning sveitarfélagsins og Árnes ferðaþjónustu á Íslandi ehf. um leigu á félagsheimilinu í Árnesi og hins vegar samningi milli sömu aðila um rekstur mötuneytis fyrir nemendur og starfsmenn Þjórsárskóla, leikskólans Leikholts og aðra starfsmenn sveitarfélagsins, sem felur í sér að hækkun skv. vísitölu tekur gildi í janúar ár hvert í stað ágúst.

Sveitarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum tvo viðauka við samninga Árnes ferðaþjónustu á Íslandi og felur sveitarstjóra að undirrita viðauka við samninga fyrir hönd sveitarfélagsins.

 

3.  Stofnun Húsnæðissjálfseignarstofnunar

Lokadrög að samþykktum húsnæðissjálfseignarstofnunar á landsbyggðinni lagðar fram.

Sveitarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum að vera stofnandi að fyrirhugaðri húsnæðissjálfseignarstofnun á landsbyggðinni. Samþykkt er að leggja 50.000 kr. í stofnfé. Sveitarstjóra falið að undirrita stofnskjöl fyrir hönd sveitarfélagsins.

 

4. Þjórsárskóli - Staða húsnæðis

Tekin voru sýni af sérfræðingi Mannvits í Þjórsárskóla. Mygla greindist í sýni en ryksýni sýndu að hún er staðbundin, þ.e. væri ekki að dreifa sér í andrúmsloftinu. Búið er að loka af svæðið þar sem sérkennsla fer fram og vinnan hafin við að lagfæra og fjarlægja loftaplötu og í framhaldinu verður svæðið ræstað m.t.t. sýnatökunnar. Framundan eru svo gluggaskipti á skólanum. Að öðru leyti lítur húsnæði skólans mjög vel út að mati sérfræðings frá Mannvit sem skoðaði húsnæðið.

 

5. Bókasafnshús framtíðarsýn og staða húsnæðis

Rakaskemmdir eru á vegg í forstofu hins svokallaða bókasafnshúsnæðis í Brautarholti. Tekið var sýni og greindist mygla í því. Ljóst er að það er leki úr loftglugga sem hefur skemmt út frá sér og þarf að laga. Að öðru leyti leit húsið mjög vel út skv. sérfræðingi Mannvits. Gera þarf kostnaðargreiningu á viðgerð v. skemmda. Ræddar voru hugmyndir um sölu á húsnæðinu.

 

6. Réttarholt - ýmis skipulagsmál

Eigendur Réttarholts óska eftir kaupum á svæði fyrir ofan land Réttarholts og nýs deiliskipulags við Flatir, til skógræktar, auk svæðis meðfram landi þeirra og að Þjórsárdalsvegi, réttarmegin, til ferðaþjónustu.

Sveitarstjórn hafnar erindinu.

 

7. Sveitarfélagið Árborg. Vinaminni

Erindi sviðssjóra fjölskyldusviðs Árborgar, dags 19. janúar 2021, þar sem farið er fram á aukna kostnaðarþátttöku nágrannasveitarfélaga vegna nýtingar sértækrar dagdvalar fyrir einstaklinga með heilabilun.

Erindið lagt fram. Sveitarstjorn samþykkir með 5 atkvæðum að komi til þess að íbúar Skeiða- og Gnúpverjarhrepps nýti sér úrræðið þá taki sveitarfélagið þátt í kostnaði vegna skjólstæðinga sinna. Einnig er óskað eftir því að Velferðarþjónusta Árnesþings meti þörf fyrir dagdvöl á svæðinu og horfur í þeim málum til framtíðar.

 

8. Lionshreyfingin á Íslandi. Rauða fjöðrin

Beiðni um styrk frá Lionshreyfingu á Íslandi og Blindrafélagsins til kaupa á leiðsöguhundum fyrir blinda.

Björgvin Skafti vék af fundi við afgreiðslu þessa máls.

Sveitarstjórn hafnar erindinu með 4 atkvæðum og óskar Lionshreyfingunni á Íslandi velfarnaðar í störfum sínum.

 

9. Samband íslenskra sveitarfélaga. Samráðsfundir

Lagt fram til kynningar.

 

10. Umsagnarbeiði v. breytingar á lögum um fiskveiðistjórn

   Lagt fram til kynningar.

 

11. Nefnd oddvita og sveitarstjóra. Úttekt á starfsemi Skóla- og velferðarþjónustu og  fundargerð nefndar.

Tekin til umræðu skýrsla vegna úttektar á starfsemi Skóla- og Velferðarþjónustu Árnesþings.

Framundan er vinnufundur hjá nefnd oddvita og sveitarstjóra um starfsemi þjónustunnar.

Sveitarstjórn telur skýrsluna gefa góða mynd af starfsemi Skóla- og Velferðarþjónustu Árnesþings og er sammála um að mikilvægt er að taka tillit til athugasemda sem komu fram í skýrslunni. Fundargerð að öðru leyti lögð fram til kynningar.

 

12. Seyrstjórnun. Fundargerð stjórnar.

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

13. Bergrisinn. Fundargerðir 35. og 36. fundar

Fundargerðir lagðar fram til kynningar.

 

14. Skipulagsnefnd UTU. Fundargerð 234. fundur

23.  Ásar L166523 og Móar 166584; Staðfesting á afmörkun lóða - 2202014

       Lögð er fram umsókn frá Höllu Guðmundsdóttir er varðar afmörkun eignamarka fyrir jarðirnar Ása og Móa sem eru í eigu sömu aðila. Móar verða 45.4 hektarar og það sem eftir stendur af Móalandi sameinast Ásum sem verða 254.2 ha.

       Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við afmörkun eignarmarka skv. fyrirliggjandi umsókn. Skipulagsnefnd mælist til að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykki erindið með fyrirvara um uppfærð gögn.

Sveitarstjórn samþykkir erindið með 5 atkvæðum með fyrirvara um uppfærð gögn.

                       

24.  Skarð 2 L166595; Vegslóði við Stóru-Laxá; Framkvæmdarleyfi - 2202017

       Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi vegna lagningar vegslóða við Stóru-Laxá. Lagning 800 metra vegslóða við Stóru-Laxá. Frá núverandi veiðihúsi í landi Skarðs 2 upp með ánni. Slóðinn verður einungis nýttur af leigutaka Stóru-Laxár og landeigendum. Slóðinn fylgir bakka árinnar og sameinast svo eldri slóða (sjá meðfylgjandi slóðablað). Slóðinn liggur um beitiland þar sem ekki er að finna vistgerðir sem friðaðar eru skv. náttúruverndarlögum. Ekki er um ræktað land að ræða. Efni í slóðann verður tekið á eyrum Stóru-Laxár, u.þ.b 5.000 m3. Um er að ræða minniháttar efnistöku sem landeigendum er heimil án leyfis skv 13. gr. skipulagslaga. Efnistökusvæði merkt E9 í aðalskipulagi.

       Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að ekki verði gerð athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og verði grenndarkynnt hlutaðeigandi landeigendum á svæðinu.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 5. gr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að framkvæmdin verði grenndarkynnt hlutaðeigandi landeigendum.

                  

25.  Strengur veiðihús L166685; Skarð 1 og Skarð 2; Deiliskipulag - 2202036

       Lögð er fram umsókn frá Stóru-Laxárdeild veiðifélags Árnes er varðar nýtt deiliskipulag sem tekur til lóðar Strengjar veiðihús L166685. Í deiliskipulaginu felst að heimilt verði að byggja veiðhús allt að 400 m² á einni hæð. Auk þess er heimilt viðhald og stækkun núverandi húss um allt að 30 m². Mænishæð húsa skal ekki yfirstíga 6.0 m frá gólfplötu. Nýtingarhlutfall lóðar verði mest 0.2. Ekki skal byggja nær lóðamörkum en í tveggja metra fjarlægð. Gólfkóti húsa skal taka mið af flóðahættu vegna nálægðar við Stóru-Laxá og skal ákveðinn í samráði við byggingarfulltrúa.

       Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja deiliskipulagstillögu til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins er gert ráð fyrir gistirými fyrir um 10 manns á svæðinu og að gert sé ráð fyrir viðhaldi mannvirkja innan þess. Að mati nefndarinnar eru framlagðar áætlanir umfram heimildir aðalskipulags. Skipulagsnefnd mælist því til þess að samhliða gerð deiliskipulags fyrir lóðina verði unnin óveruleg breyting á aðalskipulagi þar sem heimildir lóðarinnar verði auknar í takt við framlagt deiliskipulag.

Sveitarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum deiliskipulagstillögu til lóðar Strengjar veiðihúss L166685, til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt er samþykkt samhliða að skoðaðar verði aðalskipulagsbreytingar varðandi veiðihús.

                  

26. Miðhús II L166580; Landbúnaðarsvæði í frístundasvæði; Aðalskipulagsbreyting - 2101012

       Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til lands Miðhúsa í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Svæðið sem um ræðir er í landi Miðhúsa 1 og 2 og liggur beggja vegna Þjórsárdalsvegar (nr. 32). Aðalskipulagsbreytingin felur í sér breytta afmörkun og minnkun á frístundabyggð F39. Svæðið neðan vegar minnkar um u.þ.b. 10 ha en svæðið ofan vegar stækkar um u.þ.b. 5 ha. Lýsing aðalskipulagsbreytingar var kynnt frá 19. janúar - 8. febrúar. Umsagnir sem bárust er lagðar fram við afgreiðslu málsins.

       Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja tillögu aðalskipulagsbreytingar til kynningar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sveitarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum tillögu aðalskipulagsbreytingar til kynningar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

15. Samband íslenskra sveitarfélaga. Yfirlýsing CEMR v. Úkraínu

Yfirlýsing Evrópusamtaka sveitarfélaga, CEMR, um að evrópskir sveitarstjórnarmenn fordæmi brot á sjálfstæði og sjálfræði Úkraínu.

Sveitarstjórn tekur samhljóða undir yfirlýsingu evrópskra sveitarstjórnarmanna og fordæmir brot á sjálfstæði og sjálfræði Úkraínu og lýsir yfir fullum stuðningi og samstöðu með sveitarfélögum í Úkraínu og íbúum þeirra. 

 

16. Samband íslenskra sveitarfélaga. Boð um þátttöku í verkefni um hringrásakerfi.

Lagt til fram til kynningar.

 

17. Staðan í Úkraínu

Lögð fram fyrirspurn frá Önnu Maríu Flygering, íbúa, um aðgerðir sveitarfélagsins í kjölfar árása Rússa á Úkraínu og hvað sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hyggst gera ef leitað er eftir aðstoð við flóttafólk þaðan.

Sveitarstjórn harmar innrás Rússa í Úkraínu og er vilji sveitarstjórnar skýr. Sveitarstjórn  felur sveitarstjóra að skoða hvað þurfi til að hægt sé að veita flóttafólki heimili og öruggt skjól og hvaða úrræði sveitarfélagið hefur upp á að bjóða, eins og húsnæði og viðeigandi aðstoð.

 

18. Kosningar

Skv. nýjum kosningalögum skal afhending lista liggja fyrir 8 apríl. Kjórstjórn óskar eftir því að auglýst verði að tekið verði á móti framboðum til sveitarstjórnarkosninga í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þann 2. apríl.

Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa framangreinda dagsetningu, 2. apríl, og felur kjörstjórn að auglýsa fundinn. Gæta þarf þess að halda einnig fund 8. apríl þar sem kveðið er á um þann tímafrest í lögum.

 

Fundi slitið kl. 16:15. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn  miðvikudaginn 16. mars, kl.  14.00 í Árnesi.

 

Gögn og fylgiskjöl: