Atvinnu-og samgöngunefnd

5. fundur 18. febrúar 2015 kl. 14:00

Atvinnumálanefnd. 5. fundur með fulltrúum Skógræktar ríkisins og Ferðamálafulltrúa Uppsveita Miðvikudag 18.02.2015 kl 14:00 í Árnesi fundarherbergi

 

Til fundar mættu : Björgvin Þór Harðarson og Meike Witt frá Atvinnumálanefnd. Einar Bjarnason boðaði forföll. Frá Skógrækt ríkisins Hreinn Óskarsson og Jóhannes H Sigurðsson. Ásborg Arnþórsdóttir ferðamálafulltrúi, Skafti Bjarnason oddviti og Kristófer Tómasson sveitarstjóri. Í undirbúningi er að haldinn verði íbúafundur um ástand og uppbyggingarhugmyndir í Þjórsárdal á vegum Atvinnumálanefndar. Fundur þessi er liður í undirbúningi þess fundar. 

Oddviti setti fundinn. Farið var yfir hugmyndir um uppbyggingu í Þjórsárdal. Oddviti sagði frá helstu hugmyndum um uppbyggingu við Stöng og þar með töldum áformum Minjastofnunar. En staðurinn er í umsjá þeirrar stofnunar. Oddviti sagði að sveitarfélagið muni ekki leggja sjálft í kostnað við framkvæmdir í Þjórsárdal.

Hreinn Óskarsson sagði Skógræktina mjög hlynnta því að byggð verði þjónustumiðstöð í Sandártungu. Landið er að hluta þjóðlenda sem Skógræktin hefur yfirráð yfir. Hreinn greindi einni frá ástandi gróðurs í Þjórsárdal og fyrirkomulagi við gróðursetningu þar.

Jóhannes rifjaði upp að þegar uppbyggingarmál í Þjórsárdal voru rædd áður fyrr hafi því verið velt upp hvort til greina kæmi að byggja upp aðstöðu við Hjálp. En það er svæðið í kringum Hjálparfoss. Hann kvað ekki hafa reynst vera áhugi fyrir því þá. Þá hefðu hlutaðeigandi aðilar talið að betra væri að horfa til uppbyggingar á Sandártungu.

Meiki lagði mikla áherslu á að vernda þurfi Þjórsárdalinn og sérstaklega minjar við Stöng. Hún taldi æskilegast að miðpunktur Þjórsárdals yrði við Stöng og þar yrði byggð aðstaða fyrir ferðamenn auk húss yfir minjar.

Jóhannes  sagðist ekki hlynntur því að miðpunktur Þjórsárdals yrði við Stöng. Eigi að síður væri Stöng mætur minjastaður. Taldi hann Sandártungu heppilegri stað fyrir það hlutverk og þar væri heppilegt að hafa alla þjónustu á einum stað. Hreinn tók í sama streng.

Skafti lagði áherslu á að Þjórsárdalur fjölbreytt svæði og bæri fleiri en ein gerð af ferðamönnum. Björgvin benti á að ekki væru uppi hugmyndir hjá Atvinnumálanefndinni um að allsherjar þjónustumiðstöð yrði á Stöng. Aðstæður gæti verið að til að aðstaða myndi byggjast upp á fleiri en einum stað.

Ásborg sagði að uppbygging myndi þróast þar sem byrjað væri að framkvæma, miklir möguleikar væru til staðar. Fjársterkra aðila væri þörf ef uppbygging ætti að verða að veruleika.

Ákveðið var að halda undirbúningi íbúafundar áfram og stefnt að vinnufundi fljótlega.

Fundi slitið um kl 16:10.