Fjölsóttur og líflegur fundur um þjóðgarð á miðhálendi Íslands.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið stóð fyrir opnum fundi um þjóðgarð á miðhálendi Íslands í Félagsheimilinu Árnesi mánudaginn 27 ágúst.

 Formaður miðhálendisnefndar Óli Halldórsson kynnti verkefni nefndarinnar og fór yfir tímalínu verkefnisins.  Umhverfis- og auðlindaráðherra, skipaði síðastliðið vor þverpólitíska nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar allra þingflokka á Alþingi auk tveggja fulltrúa sveitarfélaga. Þá sitja fulltrúar frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu í nefndinni. Á fundinn mættu nefndarmennirnir Steingrímur J Sigfússon, Hanna Katrín Friðrikson, Vilhjálmur Árnason og Ólafur Ísleifsson, Auk Óla Halldórssonar formanns og Steinars Kaldal verkefnisstjóra.

Fundurinn var fjölmennur og dreif fólk að víða úr uppsveitum Árnessýslu. Umræður voru mjög líflegar og voru margir fundarmenn beinskeyttir í sínum ræðum.
Verkefnið sem nefndinni er falið er meðal annars það að skilgreina mörk fyrirhugaðs þjóðgarðs og setja fram áherslur um skiptingu landssvæða innan hans í verndarflokka, fjalla um hugsanlegar aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar, svæðisskiptingu og rekstrarsvæði og greina tækifæri með stofnun þjóðgarðs á byggðaþróun og atvinnulíf. Jafnframt er henni ætlað að gera tillögur að helstu áherslum í stjórnunar- og verndaráætlunum og atvinnustefnu fyrir þjóðgarðinn og lagafrumvarpi um þjóðgarðinn, þar sem m.a. er tekin afstaða til stjórnskipulags þjóðgarðsins. Nefndin á að skila tillögum haustið 2019.