Fjallaskálar á Gnúpverjaafrétti til útleigu

Gljúfurleit, Bjarnalækjarbotnar og Tjarnaver
Gljúfurleit, Bjarnalækjarbotnar og Tjarnaver

Skeiða- og Gnúpverjahreppur auglýsir eftir áhugasömum aðila til að annast útleigu fjallaskála og tveggja fjallaselja í eigu sveitarfélagsins, hér eftir nefndir skálar eða fjallaskálar, sem staðsett eru á Gnúpverjaafrétt. Umræddur aðili skal sjá um rekstur skálanna og annast útleigu til gesta, sjá um samskipti í tengslum við útleiguna og um heyþjónustu við gesti.

Um er að ræða skálana Gljúfurleit, Bjarnalækjarbotna og Tjarnarver, þrjá gangnamannakofa/sæluhús, sem nýttir eru til útleigu á sumrin. Skálarnir eru viðkomustaður fyrir ferðamann sem leggja leið sína um Gnúpverjaafrétt og Þjórsárver, ýmist ríðandi, gangandi, hjólandi og akandi.

Gljúfurleit er skilgreindur sem skálasvæði í svæðisskipulagi Miðhálendis Íslands 2015 og landslagsskipulagsstefnu og er staðsettur vestan við bakka Þjórsár. 

Um er að ræða 95 m2 gangnamannahús og hesthús með gistiplássi fyrir 20 aðila. Í húsinu er gaseldavél með bakaraofni, gasofn og steinolíuofn og vatnssalerni er inni og annað utan við húsið. Á svæðinu er lítið af röskuðu votlendi og heyrir svæðið umhverfis skálann undir hverfisverndarsvæði Þjórsár þar sem stuðla skal að verndun á gróðurlendi og náttúrufyrirbærum meðfram Þjórsá auk fossa hennar. Skálinn er í góðu vegsambandi og vel fær fjórhjóladrifnum farartækum. Gert er ráð fyrir ferðaþjónustu yfir sumarið og möguleika á einhverri starfsemi yfir vetrartímann. Að auki er möguleiki á rekstri tjaldsvæðið við skálann. Á svæðinu er heimilt að framleiða rafmagn með vindmyllu, sólarspeglum eða olíurafstöð, allt að 10 kW.

 

Bjarnalækjarbotnar er skilgreindur sem fjallasel í svæðisskipulagi Miðhálendis Íslands 2015 og landslagsskipulagsstefnu og er staðsettur undir norðausturhlíðum Flóamannaöldu við svokallaðan Bjarnarlæk Innri, í um 3,5 km fjarlægð frá Þjórsá. Um er að ræða skemmtilegt 50 m2 gangnamannahús sem er ný uppgert að hluta og með gistiplássi fyrir 22 aðila. Gasofn er í húsinu til hitunar og gashellur til eldunar. Vatn er sótt í læk sem rennur hjá svæðinu. Salernishús (útikamar) er að utan. Svæðið umhverfis skálann heyrir undir hverfisverndarsvæði Þjórsár þar sem stuðla skal að verndun á gróðurlendi og náttúrufyrirbærum meðfram Þjórsá auk fossa hennar. Vesturhluti svæðisins er vel gróin en austan við Bjarnarlæk eru gróðursnauðir melar og sandlendi. Á svæðinu er heimilt að framleiða rafmagn með vindmyllu, sólarspeglum eða olíurafstöð, allt að 10 kW.

 

 

Tjarnarver er skilgreindur sem fjallasel og er staðsettur við bakka Þjórsár og er innan Friðlands Þjórsárvera. Landið umhverfis skálann er flatlent og vel gróið og er þar að finna mólendi og moslendi. Um er að ræða nýlegan 46 m2 gistiskála með gistiplássi fyrir 16 aðila. Gashitari og gashellur eru í húsinu en ekkert vatn til neyslu er nálægt svæðinu. Salernishús (útikamar) er fyrir utan skálann. Á svæðinu er einnig hesthús sem hægt er að gista í við góðar veðurfarslegar aðstæður.
Á svæðinu er heimilt að framleiða rafmagn með vindmyllu, að hámarki 6 metrar að hæð, sólarspeglum eða olíurafstöð, allt að 10 kW. Á deiliskipulagi sem nú er að klárast er gert ráð fyrir áningarhólfi fyrir hesta og afmarkað svæði fyrir tjöld auk nýs vatnsbóls.

Aðkoma að skálunum er eftir vegslóðum á Gnúpverjaafrétti. Um er að ræða rudda vegslóða eða lítillega íborna vegi sem opnast þegar snjóa leysir og land þornar. Lækir og ár á svæðinu eru óbrúaðar. Sl. sumur hefur verið unnið að því að bæta vegslóða á svæðinu með því að hefla og eyða stórgrýti á vegslóðum sem liggja að skálunum en sumarið 2024 er gert ráð fyrir að farið verði langleiðina með að hefla vegslóða frá Kisu og inn í Tjarnarver.

Vegalengd frá Gljufurleit og að Bjarnalækjarbotnum eru um 20 km og frá Bjarnalækarbotnum inn í Tjarnarver er um 30 km. Samtals vegalengd á milli skála er því um 50 km.

Umrætt svæði er á þjóðlendu (Gnúpverjaafrétti) skv. úrskurði óbyggðanefndar frá 21. mars 2002 í máli nr. 7/2000. Í ljósi þess þarf leyfi sveitarfélagsins Skeiða- og Gnúpverjahrepps til að nýta land og landsréttindi á svæðinu, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlenda og afrétta. Jafnframt þarf samþykki forsætisráðuneytisins, þar sem umrædd nýting á að vara lengur en til eins árs, sbr. 2. mgr. 3. gr. sömu laga.

Það er stefna Skeiða- og Gnúpverjahrepps að nýting hálendisins til útivistar og ferðaþjónustu sé sjálfbær, í sátt við náttúru og umhverfi þannig að yfirbragð hálendisins haldist að mestu ósnortið. Er það í samræmi við landsskipulagsstefnu og stefnu forsætisráðuneytis um samþykki fyrir nýtingu lands og landsréttinda.

Rekstraraðili skal byggja upp ferðaþjónustu í og við skálanna og sjá um allt nauðsynlegt og eðlilegt viðhald á hinum leigu skálum.
Við uppbyggingu á svæðinu er mikilvægt að gæta að því að óbyggðaupplifun og náttúrugæði skerðist sem minnst vegna mannvirkja og umferðar. Allt jarðrask sem getur haft í för með sér truflun eða röskun á dýralífi og/eða eyðileggingu á rústamýrarvist og öðrum vistgerðum er óheimilt í friðlandinu. Tekið skal mið af því að fjarlægð milli jaðar- og hálendismiðstöðva og fjallaselja sé jafnan hæfileg dagleið fyrir göngufólk.

Skilmálar sem einkum verður litið til við úthlutun rekstrar á svæðinu eru eftirfarandi.          Ekki skal litið svo á að röðun þeirra gefi til kynna vægi einstakra skilmála innbyrðis:
o Hvernig viðkomandi hyggst nýta skálana í þeim tilgangi að hafa þar þjónustu fyrir ferðamenn og aðra sem eiga leið um svæðið,
o Áhugi á uppbyggingu skálana,
o Frágangur mannvirkja og annarrar starfsemi. Sveitarfélagið mun sérstaklega líta til þess að frágangur verði með þeim hætti að samræmist landslagi vel og stingi ekki í stúf við                        umhverfið að öðru leyti,
o Þekking og reynsla viðkomandi aðila af hálendisferðamennsku og starfsemi afréttarskála,

o Reynslu af gerð og viðhaldi göngustíga og annarra ferðaþjónustutengdra mannvirkja,
o Reynsla af landgræðslu vegna óheimils utanvega aksturs.

Sveitarfélagið áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Áhugasamir aðilar skulu senda inn upplýsingar um umsækjanda, fyrirhuguð uppbyggingaráform og til sveitarfélagsins Skeiða- og Gnúpverjahrepps, eigi síðar en föstudaginn 26. apríl nk. Frekari upplýsingar veitir Haraldur Þór Jónsson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps á netfangi sveitarstjóra, haraldur@skeidgnup.is

Fjallaskálar á Gnúpverjaafrétt