- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Sveitahátíðin "Upp í sveit" fer af stað með látum þetta árið, þegar stórsveitin Bjartmar og Bergrisarnir stíga á stokk í Félagsheimilinu Árnesi. Aðgangseyrir er 5.900 kr. og miðar einungis seldir við dyrnar. Húsið opnar kl. 20.00 - Barinn opinn hjá Þórði og upplagt að fá sér fordrykk í garðinum... því það verður komið sumar!!
Kl. 10 -17 Handverksmarkaðurinn Handverk&Hám sem fyrir löngu hefur sannað gildi sitt. Ýmislegt í bland við allskonar á boðstólnum hjá handverksfólki og matgæðingum bæði innan sveitar og utan.
Kl. 10 -11 Froðurennibraut með slökkviliðinu og frítt í sund
Athugið að börn eru á ábyrgð foreldra sinna í rennibrautinni og börn undir 10 ára þurfa að vera með forráðamann með sér í sundi - Minnum á að það er hvorki aldurs- né þyngdarhámark í froðurennibraut!
Koddaslags-bitinn góði verður á sínum stað yfir sundlauginni fyrir þá sem vilja skora einhverja á hólm !
Kl 10 - 17 Hoppukastalar fyrir börnin verða opnir frá kl. 10 og fram eftir degi
Kl. 10-17 Vélasýning - Við reynum að lokka fram perlurnar sem leynast í bílskúrum, vélaskemmum og á hlöðum sveitarinnar.
Kl. 10-22 Veitingastaðurinn Brytinn opinn með ýmis skemmtilegt tilboð.
Kl 10 -17 Málverkasýning - Sigríður Björk Gylfadóttir
Sigríður Björk Gylfadóttir heldur sína fyrstu málverkasýningu. Hún er bóndi og leikskólakennari og býr í Steinsholti í Gnúpverjahreppi.
,,Mig hefur alltaf langað til að vatnslita og í vetur þurfti ég að taka því aðeins rólega í nokkrar vikur svo þá var kjörið tækifæri til að prufa að mála. Ég er enn að prufa mig áfram, en á þessari sýningu er sýnishorn af því sem ég hef verið að gera í vetur. Þetta er virkilega skemmtilegt og ég á eftir að halda áfram að mála."
Kl. 10 -17 Ljósmyndasýning Sigrúnar Ernu
Sigrún Erna er 49 ára gömul og hefur mikla ástríðu fyrir náttúru og dýralífi. Hún er uppalin í Reykholti í Bláskógabyggð, er leiðsögumaður, dýravinur og náttúruunnandi sem hefur einstaklega gott auga fyrir umhverfinu í kringum sig. Í gegnum árin hefur hún nýtt sér ljósmyndun sem verkfæri til að fanga fegurðina í umhverfinu okkar. Með myndavélina við höndina hefur hún náð að fanga einstök augnablik í náttúrunni, allt frá sólarupprásum og sólarlagi yfir í fallegar landslagsmyndir og myndir af dýrum í sínu náttúrulega umhverfi.
,,Þetta áhugamál hefur ekki aðeins gefið mér tækifæri til að skapa list heldur einnig hefur það hjálpað mér að ná djúpri tengingu við umheiminn og náttúruna í kringum mig. Ljósmyndirnar mínar segja sögur um það hvernig ég upplifi og túlka náttúruna og dýralífið, og ég vona að þær veiti öðrum innblástur til að meta og vernda þessar verðmætu auðlindir sem við eigum hér á Íslandi. "
Kl 13.30 Kassabílarallý !
Ofurhjónin Ari&Dísa hafa legið undir feldi síðan í vetur við hönnun nýrrar rallýbrautar. Nú stefnir í erfiðari þrautir, meiri drullu, meiri hraða og hvað ekki?!
Eins og áður er öllum frjálst að taka þátt óháð kyni, aldri, búsetu eða öðru. Eina krafan er að bíllinn standist skoðun um að vera "heimasmíðaður" og áhöfn bílsins telji ekki fleiri en tvo.
Verðlaun eru veitt fyrir hraða í brautinni - og mótsstjórar áskilja sér rétt til að skipta keppninni upp eftir aldri eða reynslu ef svo ber undir.
kl. 16 Kökuskreytingakeppni!
Keppendur fá allir eins kökubotna á eins disk, hvítt smjörkrem, matarliti, einfalda sprautupoka og nokkrar tegundir af kökuskrauti.
Keppendur þurfa að hafa með sér: Stúta í sprautupokann og þá spaða eða hnífa sem þeir þurfa til að skreyta eftir sínu höfði, gott að vera með litlar skálar, flísatöng fyrir þá nákvæmu…
Keppendur mega einungis nota þann efnivið sem í boði er en þurfa að sleppa ímyndunaraflinu lausu til gera það besta úr því. Kökubotnana má skera til - en skylda er að nota allan botninn hvernig sem það er.
Engrar sérstakrar reynslu eða hæfni er krafist - né hæfileika ef út í það er farið og ekkert aldurstakmark - hægt er að skrá sig sem einstaklingur eða allt að þrjá saman í lið.
Nauðsynlegt er að skrá sig í netfangið hronn@skeidgnup.is
Mæting keppenda er eigi síðar en 15.45 í matsalinn í Árnesi (austast í húsinu)
Kl. 18:00 Sveitaleikar í garðinum
Sveitaleikarnir verða með svipuðu sniði og áður: allir geta eitthvað, enginn getur allt! Endilega hitið upp og æfið ykkur fyrir sveitaleikana - hvernig sem þið farið nú að því!
Liðin þurfa að samastanda af ca 4-5 og gott að hafa mikla breidd í hæfileikum og getu.
Skráning í netfangið: hronn@skeidgnup.is eða á staðnum - en opið er fyrir skráningu til kl. 17
Fyrir þá sem aldrei hafa séð sveitaleika þá fara þeir fram í garðinum sunnan við veitingastaðinn Brytann. Yfirleitt keppa tvö lið í einu í hinum ýmsu þrautum, oft er keppnin skemmtilegri fyrir áhorfendur en keppendur, einstaka sinnum brotna rifbein - en það fer allt eftir keppnisskapinu hverju sinni.
Kl. 19.00 - 22.00 Opið hús í veiðihúsinu Stuðlastreng
Veiðifélag Stóru-Laxár býður gestum og gangandi að skoða nýtt og reisulegt veiðihús þeirra, Stuðlastreng, á bökkum Stóru Laxár í landi Skarðs. Húsið var byggt sumarið 2023 og tekið í notkun síðsumars.
Ath. að bílastæði eru af skornum skammti við göngubrúna yfir Sandá. Við hvetjum alla til að sameinast í bíla og bílastæðaverðir okkar reyna að raða eins vel og hægt er. Munum bara að þolinmæði þrautir vinnur allar!
Kl. 9 Hreyfistund fjölskyldunnar - Viktoría Rós stýrir hreyfistund sem ætti að henta öllum í fjölskyldunni - öllum aldurshópum og engin krafa gerð um fyrri íþróttaafrek til að geta tekið þátt. Hreyfistund fer fram á opnu svæði stutt frá skógarskýlinu.
Kl. 9-11 Morgunverður í boði Rauðukamba verður framreiddur af Kvenfélagi Gnúpverja í og við skógarskýlið við Sandá. Hvetjum við öll til að kippa með sér viðeigandi viðlegubúnaði eins og kannski rómantísku rauðköflóttu lautaferðarteppi, þægilegum tjaldstól, margnota kaffibolla til að minnka rusl?
Kl. 11 Reiðhjólaferð með Emil - Fyrir þau sem eru til í smá brekkur og hressandi hreyfingu á nýjum slóðum.
Emil sjálfur segir um ferðina: "Skemtilegt down hill með allskonar undirlagi: mold, rótum, vikur, sandur, ár. Fært flestum." -Og ef einhver partur af leiðinni vex fólki í augum þá er bara hægt að labba smá.
Lagt af stað frá Skógarskýlinu - þeir sem vilja vera með mæti þar með reiðhjólið sitt.
Kl. 11 Rýnt í skóginn - Leikir og þrautir með Færni til framtíðar í Skriðufellsskógi.
Leikum okkur með náttúrulegan efnivið í bland við skapandi hugsun og allskonar verkfæri sem hvetja til hreyfingar. Hlakka til að sjá sem flesta með bros og glens í farteskinu.
Rýnt í skóginn er fjölskylduskemmtun með aldurinn 4-8 um það bil sem aðalmarkhóp - þó allir sem hafa áhuga á umhverfi sínu hefðu eflaust gaman að og allir velkomnir.
Hægt er að kynna sér Færni til framtíðar á instagram: faernitilframtidar
Kl. 11 Gönguferð með Berg um Skriðufellsskóg. Bergur er innfæddur og ansi fróður um bæði náttúru og umhverfi. Rólegheita ganga á flötu í ca 2 klst. Gönguferð með Bergi klikkar aldrei.
Eftir skipulögð ævintýri í skóginum verður heitt í kolunum í stóra grillinu í skógarskýlinu, upplagt að taka með sér eitthvað einfalt á grillið og halda svo áfram að skoða ævintýri skógarins... nú eða taka sundsprett í Sandá.
Fyrir hreyfihamlaða er leyfilegt að keyra að Skógarskýlinu frá Skriðufelli en sú leið er eingöngu fær stærri bílum. - frekari upplýsingar má fá í síma 8481426
Kanadíski Selfyssingurinn, tónmenntakennarinn og stórsöngvarinn Joel Durksen flytur amerísk þjóðlög í Skemmunni í Þrándarholti.
Aðgangseyrir er 2500 kr og er selt inn við dyrnar.
Hefðbundin hátíðardagskrá fer fram í salnum í Brautarholti. Nemendur í Leikholti hafa tekið að sér að skreyta salinn og Kvenfélag Skeiða ber fram hátíðarkaffi í boði sveitarfélagsins eftir hátíðardagskrána. Helga Höeg Sigurðardóttir frá Hæli, sem nýverið þreytti framhaldspróf sitt í píanóleik flytur okkur lag, fjallkonan stígur á stokk og einhver sveitungi okkar fer yfir hugrenningar sínar í hátíðarræðu.
Hæfileikasýning verður haldin undir hátíðarkaffinu. Þar mega allir spreyta sig og sýna hæfileika sína, sama hvar þeir liggja - svo lengi sem þeir njóti sín á sviði! Á sýningunni er ekki aldurstakmark - hún er opin öllum sem telja sig eiga erindi í hæfileikasýningu barnanna ! Allir sem taka þátt fá þátttökuverðlaun.
Sveitungar okkar frá Sandlæk sem nýverið tóku við rekstri Þjóðveldisbæjarins bjóða gestum hátíðarinnar að koma í heimsókn í Þjóðveldisbæinn.
Í þjóðveldisbænum upplifa gestir forna og framandi lífshætti. Þar má klæðast miðaldafatnaði, skoða afþreyingu þess tíma í skálanum, vefa á kljásteinavefstól og rökræða á bekkjunum áður en haldið er út að skylmast að víkingasið.
Við bæinn er ýmiss fróðleikur um daglegt líf fólksins sem glæddi dalinn lífi fyrir hátt í þúsund árum.
Sumarhátíðin Upp í Sveit væri nú lítilfjörleg - ef ekki væri fyrir samvinnu allra aðila er að henni standa og auðvitað mætingu og þátttöku íbúa og gesta hér í sveit. - Menningar- og æskulýðsnefnd þakkar öllum sem löggðu hönd á plóg og ennfremur öllum sem komu á viðburðina, tóku þátt og vonandi áttu góðan dag.
Eftirtaldir aðilar fá sérstakar þakkir fyrir framlag sitt:
Ari og Dísa kassabílarallýsnillingar
Bergljót Þorsteinsdóttir - Fyrir að vera verndari Fjallkonunnar
Bergur Björnsson - Fyrir að ganga langt með okkur!
Biddí (Bryndís Baldursdóttir) fyrir að skella í kökukrem!
Brunavarnir Árnessýslu og froðurennibrautar slökkviliðsmennirnir
Emil Vilbergsson hjólakappi fyrir þátttökuna
Fjölskyldan í Þrándarholti fyrir gestrisni og opin huga
Flying Tiger á Íslandi - fyrir frábærar útivistargjafir í verðlaun
Helga Höeg Sigurðardóttir fyrir yndislegan píanóleik
Innbak - fyrir góðar ráðleggingar, verðlaun og áhöld fyrir kökuskreytara
Kvenfélögin okkar góðu - fyrir að vera alltaf til í verkefni
Litla bændabúðin - fyrir hollustunamma í þátttökuvinninga
Leikskólabörn í Leikholti fyrir skreytingar á þjóðhátíðardag
Rauðukambar - fyrir að bjóða okkur uppá morgunverð í skóginum
Sabína Steinunn Halldórsdóttir fyrir skógarverkefnin
Starfsfólk Brytans og Þórði sérstaklega fyrir greiðviknina og allar sögurnar
Ungmennaráð SkeiðGnúp - fyrir hugmyndir og vinnuvilja
Veiðifélag Stóru-Laxár fyrir frábært heimboð
Þjóðveldisbærinn - fyrir frábært heimboð