Skaftholtsréttir

Skaftholtsréttir eru fjárréttir Gnúpverja í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Réttirnar, þ.e. réttastæðið, er talið vera það elsta á Íslandi og er talið vera frá 12. öld. Réttirnar eru hlaðnar úr Þjórsárhraungrýti og Sigurður Eyvindsson í Austurhlíð teiknaði þær. Réttirnar fóru illa í Suðurlandsskjálftunum sumarið 2000, nánast eyðilögðust, og var almenningurinn endurhlaðinn í kjölfarið og steinsteyptar umgjarðir dilkadyra endursteyptar.

Í nóvember 2005 var stofnað Réttavinafélag Skafholtsrétta og afhenti félagið sveitarfélaginu þær full endurgerðar í júlí 2009. Heppnaðist verkið við endurgerð þeirra mjög vel og þar sannaðist hið fornkveðna "margar hendur vinna létt verk" því margir komu að því mikla og fórnfúsa starfi en þeir hleðslumenn Kristján Ingi og Víglundur eiga þar lof skilið fyrir sitt framlag við verkið.

Félagið ber nafnið "Vinir Skaftholtsrétta".

Fram til ársins 1996 var réttað á fimmtudegi, en var þá flutt til föstudags í 22. viku sumars. Fram til haustsins 2007 var austursafn Skeiða- og Flóamanna rekið í almenning Skaftholtsrétta um 10-leytið að morgni og dregið var úr því í allt að tvo tíma. Nú hefur því verið hætt og fer fé Flóa- og Skeiðamanna fram hjá.