Sveitarstjórn

Velja má nefnd úr boxinu hér hægra megin / fyrir neðan til að sjá allar fundargerðir viðkomandi nefndar.

11. fundur 07. desember 2022 kl. 09:00 - 12:40 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Bjarni Hlynur Ásbjörnsson
  • Gunnar Örn Marteinsson
  • Karen Óskarsdóttir
  • Vilborg Ástráðsdóttir
Starfsmenn
  • Sylvía Karen Heimisdóttir
Fundargerð ritaði: Sylvía Karen Heimisdóttir

Erindi til sveitarstjórnar til afgreiðslu og umfjöllunar:

  1. Skýrsla sveitarstjóra á 11. sveitarstjórnarfundi

Sveitarstjóri fór yfir stöðu á eftirfarandi verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu tveimur vikum:

Fundur með Magnúsi Orra vegna bygginga íbúða í Árnesi.

Fundur sveitarstjórnar með framkvæmdastjórn Landsvirkjunar.

Skóflustunga að nýjum íbúakjarna fyrir fatlaða í Nauthaga.

Upphafsfundur endurskoðunar með KPMG.

Skólaþing.

Áhugi fleiri aðila að uppbyggingu íbúðahúsnæðis í sveitarfélaginu.

Verndaráætlun Þjórsárdalsins að klárast.

Vinnufundir við fjárhagsáætlanagerð.

Breytt Skóla- og velferðarþjónusta að taka á sig mynd.

Desemberfundur Samorku.

Fundur með forstjóra Landsvirkjunar.

Fundur með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Fundur með Hjalta Jóhannessyni frá Háskólanum á Akureyri vegna samfélagslegra áhrifa virkjana á Þjórsár- og Tungnaársvæði.

Opnun tilboða í Fossá.

 

  1. Fjárhagsáætlun 2023 og 2024-2026 - seinni umræða

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 lögð fram til lokaumræðu og afgreiðslu í sveitarstjórn ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2024-2026. Farið var yfir helstu forsendur fjárhagsáætlunar. Gert er ráð fyrir að tekjuafgangur verði á rekstri samstæðu sveitarfélagsins vegna ársins 2023 að fjárhæð 12,8 millj. kr. eftir fjármagnsgjöld, afskriftir og skatta.

Útsvarstekjur ársins 2023 voru varlega áætlaðar út frá spá Sambands íslenskra sveitarfélaga og þróun útsvarstekna árið 2022. Í fjárhagsáætluninni er áætlun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um þróun greiðslna niðurfærð um 3%. Fasteignamat í sveitarfélaginu hækkar að meðaltali um 16% árið 2023. Í áætluninni er gert ráð fyrir breytingu á álagningarforsendum fasteignaskatts A úr 0,45% í 0,4%, álagningarprósentur B og C hluta eru óbreyttar. Samtals er í áætlun gert ráð fyrir 10% hækkun skatttekna á milli ára. Rekstrarútgjöld hækka milli ára, bæði vegna aukinnar verðbólgu en einnig vegna óvissu um þróun flestra kjarasamninga sem eru lausir á næsta ári. M.a. hækka málaflokkar félags- og velferðarþjónustu um 24,7%, fræðslu- og uppeldis um 8,1% og málaflokkur æskulýðs og íþróttamála um 5,7%. Gert er ráð fyrir að útgjöld vegna reksturs Skóla- og velferðarþjónustu aukist á árinu en breyting verður á rekstri samstarfseiningarinnar á árinu 2023. Óverulegar breytingar eru á rekstri eininga og stofnana sveitarfélagsins að öðru leyti. Gjaldskrár leikskóla, skóla og mötuneytis hækka um 9,3%, en gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs tekur töluverðum breytingum á árinu í tengslum við breytta löggjöf um meðhöndlun úrgangs. Klippikort verða ekki lengur í boði og þarf skv. gjaldskrá að greiða fyrir allt sorp sem komið er með á móttökustöð sveitarfélagsins, að undanskyldum pappa og plast og þeim vöruflokkum sem bera úrvinnslugjald Úrvinnslusjóðs. Mikill hallarekstur hefur verið á rekstri fráveitu, en tekjur sveitarfélagsins af fráveitu- og rotþróargjaldi eiga að standa undir kostnaði. Hækkar rotþróargjaldið skv. gjaldskrá um 16,3% en fráveitugjaldið verður áfram 0,25% af heildarfasteignamati. Áfram er gert ráð fyrir að greiða þurfi með málaflokki varðandi meðhöndlun úrgangs sem og rekstri fráveitu en vonast er til að jafnvægi náist í rekstri fráveitu næstu árin. Skv. áætlun um sjóðsstreymi er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri muni nema um 60 millj. kr. og verður nýtt til að greiða fyrir fjárfestingar á árinu og af afborgunum langtímalána.

Framkvæmdir við fasteignir sveitarfélagsins skiptast annars vegar í viðhald og hins vegar í fjárfestingar. Í áætlun er gert ráð fyrir áætlaðri viðhaldsþörf samtals að fjárhæð 40 millj. kr., á félagsheimilinu í Árnesi, Þjórsárskóla, félagsheimilinu í Brautarholti og Leikholti ásamt Skeiðalaug á árinu 2023. Gert er ráð fyrir fjárfestingum á árinu, samtals að fjárhæð 254 miljónir, m.a. við gatnagerð í Brautarholti, breytinga á gámasvæði, á húsnæði Þjórsárskóla, húsnæði Leikholts í Brautarholti, Skeiðalaug og borun á nýrri heitavatns holu í Brautarholti. Er gert ráð fyrir að framboð byggingalóða aukist á næstu árum bæði í Brautarholti og Árnesi og er mikil áhersla lögð á uppbyggingu innviða í sveitarfélaginu á næstu árum. Gert er ráð fyrir að greiðsla gatnagerðargjalda komi að hluta til móts við fjárfestingar vegna gatnagerðar á næsta ári en gera má ráð fyrir að áhrif á rekstur vegna framboðs nýrra lóða verði meiri árin 2024 og 2025 en árið 2023. Ljóst er að kostnaður við málaflokka hækkar ört og er brýnt að sýna stöðugt aðhald í rekstri til að kostnaður við rekstur þeirra sé í sem bestu samræmi við þær tekjur sem sveitarfélagið hefur.

Með breytingu sem gerð var á reglugerð nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga á árinu 2021, þurfa sveitarfélög nú að færa í samantekin reikningsskil sín, sem og fjárhagsáætlanir, hlutdeild sína í byggðasamlögum, sameignarfélögum, sameignarfyrirtækjum og öðrum félögum með ótakmarkaðri ábyrgð.

Sveitarfélagið er aðili að eftirtöldum samrekstrarfélögum:

  • Bergrisinn
  • Brunavarnir Árnessýslu
  • Héraðsnefnd Árnesinga
  • Umhverfis- og tæknisvið Uppsveita
  • Velferðar- og skólaþjónustu
  • Heilbrigðiseftirlit Suðurlands
  • Samband sunnlenskra sveitarfélaga

Áætlanir framangreindra rekstrareininga fyrir árin 2023 til 2026 um rekstur, efnahag og sjóðsstreymi liggja ekki fyrir, að undanskildum rekstrarreikningi fyrir árið 2023, og því hafa áhrif þeirra ekki verið verið færð í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Þegar samþykktar fjárhagsáætlanir framangreindra rekstrareininga, með rekstrarreikningi, efnahag og sjóðsstreymi til næstu fjögurra ára, liggja fyrir á viðeigandi formi er fyrirhugað að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2023 til 2026.

Helstu tölur fyrir árið 2023 eru að tekjur samstæðu nemi 1.048 millj. kr.. Rekstrargjöld verða millj. kr. 977 millj. kr. kr., afskriftir nema 38 millj. kr. og fjármagnsgjöld verða 19 millj. kr. Rekstarafgangur samstæðu nemur 12,8 millj. kr. Handbært fé frá rekstri samstæðunnar í lok árs verður 60 millj. kr. Afborganir langtímalána eru áætlaðar 22 millj. kr. Gert er ráð fyrir að fjárfestingar nemi 254 millj. Kr. og að gatnagerðargjöld að fjárhæð 35 millj. kr. komi til lækkunar á fjárfestingu. Í Hitaveitu Brautarholts verður tekið 20 millj. kr. langtímalán og í Aðalsjóði sveitarsjóðs verði lántaka að fjárhæð 148,5 millj. kr.

Þriggja ára áætlun áranna 2024- 2026 er ekki staðfest fjárhagsáætlun heldur einungis yfirlit yfir það sem er á dagskrá þessi ár. Gera má ráð fyrir að fjárhæðir vegna rekstur og framkvæmda breytist frá því sem kemur fram í áætluninni hverju sinni. Áætlunin sem lögð er fram núna byggist á áætlun 2023 of spá um íbúaþróun til næstu ára. Gert er ráð fyrir óbreyttum rekstri allra málaflokka að öðru leyti til næstu þriggja ára. Gert er ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð 11,7 millj. kr. árið 2024, 46 millj. kr. árið 2025 og 111,7 millj. kr. árið 2026.

Umræður sköpuðust um fjárhagsáætlun og hvernig staða sveitarsjóðs sé að styrkjast sem gerir sveitarfélaginu kleift að leggja áherslu á fjárfestingar í innviðum sveitarfélagsins á næstu árum. Í ljósi þess að miklar fjárfestingar eru fyrirhugaðar í fasteignum sveitarfélagsins er mikilvægt að áður en farið verður í viðkomandi framkvæmd að lögð verði fyrir sveitarstjórn nákvæm kostnaðaráætlun og/eða tilboð í þær framkvæmdir.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum fjárhagsáætlun vegna ársins 2023 og áranna 2024-2026 og felur fjármálastjóra að annast skil á áætluninni til viðkomandi aðila.

 

  1. Gjaldskrár og álagningarforsendur 2023

Álagning gjalda og gjaldskrárbreytingar fyrir árið 2023.

Fasteignaskattur breytist á milli ára og er:

A-flokkur lækkar úr 0,45% í 0,40% af heildar fasteignamati:

Íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum.

B-flokkur 1,32% af heildar fasteignamati:

Sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heimavistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn.

C-flokkur 1,65% af heildar fasteignamati:

Allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

Afsláttur af fasteignaskatti fer eftir 3. gr. samþykktar sveitarstjórnar frá 7. febrúar 2006. Fólk 67 ára og eldra og fólk sem eru 75% öryrkjar eða meira geta sótt um afslátt á fasteignagjöldum þeirra íbúðar sem það býr í og ekki er nýtt af öðrum.

Afsláttur af fasteignagjöldum tekur breytingum frá árinu 2022 í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs á tímabilinu 1. des 2021 - 1. des 2022.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum álagningarhlutfall fasteignaskatts fyrir árið 2023, að afsláttur á fasteignagjöldum taki breytingum frá árinu 2022 í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs frá des 2021 til des 2022 og að gjalddagar fasteignagjalda árið 2023 verði 10 talsins, frá febrúar til nóvember.

Gjaldskrá vatnsveitu:

Heimæðagjald:

Grunnur heimæðagjalds vatnsveitu er 150.000 kr. og var samþykktur í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepp þann 6. október 2009, m.v. byggingarvísitölu grunnvísitölu í janúar 2009, 489,6 stig. Heimæðagjald í nóvember 2022, er þá 248.683 kr. m.v. byggingarvísitölu nóvember 2022, 881,7 stig.

 

Vatnsgjald:

Vatnsgjald helst óbreytt 0,2% af heildarfasteignamati íbúðarhúsi, lóða og atvinnuhúsnæði, þó að hámarki 37.000 kr. Eitt vatnsgjald er innheimt af sumarhúsum, 31.500 kr.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum gjaldskrá vatnsveitu árið 2023.

 

Lóðarleigugjöld:

Lóðarleigugjöld innheimtast skv. lóðarleigusamningum.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum gjaldskrá fyrir lóðarleigu 2023.

Gjaldskrá fráveitugjalda/Seyrulosunargjalda:

Holræsagjald:Þar sem holræsakerfi er til staðar á vegum sveitarfélagsins er innheimt holræsagjald, 0,25% af fasteignamati.

Stofngjald fráveitu/Heimtaugagjald:

Heimtaug 150 mm eða grennri 248.000 kr.

Heimtaug 151-200 mm 262.000 kr.

Heimtaug 201-250 mm 277.000 kr.

Semja þarf sérstaklega um stofngjald fráveitu á stöðum fjarri stofnlögnum holræsa, þ.e. yfir 20 metra og einnig ef um sérstakar úrlausnir fráveitumála er að ræða. Stofngjald fráveitu fylgir byggingarvísitölu. Grunnvísitala er byggingarvísitala, grunnur 2009, í nóvember 2022, 176 stig.

Rotþróargjald:

Sveitarfélagið innheimtir árlega rotþróargjald til niðurjöfnunar á kostnaði við tæmingu rotþróa. Árlegt gjald fyrir losun seyru þar sem tæming er á þriggja ára fresti verður 13.775 kr.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum gjaldskrá fyrir fráveitu 2023.

Gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs 2023 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi:

Stærð grunneiningar er 240 l grátunna fyrir óflokkaðan úrgang, 660 l græntunna fyrir pappír, 240 l svarttunna fyrir plast og 120/240 l brúntunna fyrir lífúrgang.

Gjald á grunneiningu við íbúðahúsnæði 59.800 kr.

Viðbótargjald fyrir stærri ílát við heimili:

Óflokkaður úrgangur, stækkun úr 240L tunnu í 660L tunnu 47.900 kr.

Óflokkaður úrgangur, stækkun úr 240L tunnu í 1.100L tunnu 76.900 kr.

Pappír, stækkun úr 600L tunnu í 1.100L tunnu 8.900 kr.

Auka plast tunna 8.900 kr.

 

Frístundahús:

Grunngjald frístundahúss 26.900 kr.

Sorpeyðingargjald fyrir dýrahræ:

Sorpeyðingargjald vegna dýrahræja er lagt á alla aðila með búrekstur.

Gjaldflokkur 1: (mikil notkun) 160.000 kr.

Gjaldflokkur 2: 60.000 kr.

Gjaldflokkur 3: (Örbú) 18.000 kr.

Gjaldsskrá móttökustöðvar:

Allur úrgangur frá heimilum, fyrirtækjum, frístundahúsnæði, lögbýlum, og frístundahúsafélögum, sem komið er með á móttökustað Skeiða- og Gnúpverjahrepps er gjaldskyldur við afsetningu nema brotamálmar og úrgangur sem ber úrvinnslugjald Úrvinnslusjóðs.

Gjald miðast við m3 og mun vera eftirfarandi:

Móttökugjald á 0,25 m3 af óflokkuðum úrgangi er 4.600 kr.

Móttökugjald á 0,25 m3 af grófum úrgangi er 4.600 kr.

Móttökugjald á 0,25 m3 af lituðu timbri 3.500 kr.

Móttökugjald á 0,25 m3 af ólituðu timbri 2.500 kr.

Móttökugjald á 0,25 m3 af gleri 4.000 kr.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs í Skeiða- og Gnúpverjahreppi 2023.

Aðrar gjaldskrár:

Gjaldskrá leikskólans Leikholts: Gert er ráð fyrir 9,3% hækkun á fæði til nemenda og 9,3% hækkun á vistunargjöldum í Leikholti.

Gjaldskrá Þjórsárskóla: Gert er ráð fyrir 9,3% hækkun á fæði og gjöldum í skólavist.

Gjaldskrá vegna fæðis til starfsfólks og eldri borgara: gert er ráð fyrir 9,3% hækkun á gjaldskrá, úr 495 kr. í 541 kr.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum gjaldskrár fyrir fæði og vistunargjöld í Leikholti, Þjórsárskóla og fyrir starfsmenn og eldri borgara fyrir árið 2023.

Lagt er til að tómstundastyrkur verði 80.000 kr. pr. barn á aldrinum 6-18 ára.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum að tómstundastyrkur verði 80.000 kr. pr. barn á árinu 2023.

  1. Tölvukerfi sveitarfélagsins

Á sveitarstjórnarfundi 3. ágúst lagði sveitarstjóri fram tillögur á breytingum á tölvukerfi sveitarfélagsins. Síðan þá hafa verið gerðar ýmsar breytingar sem hafa lækkað kostnað. Sveitarstjóri óskar eftir heimild til að taka upp nýtt mála- og skjalastjórnunarkerfi.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum taka upp nýtt mála- og skjalastjórnunarkerfi. Áætlaður kostnaður við kaupin og innleiðingu fellur innan núverandi fjárhagsáætlunar.

 

  1. Dómur í máli Áshildarmýrar ehf vs. Skeiða og Gnúpverjahrepp

Hinn 21. nóvember sl. féll dómur í máli Áshildarmýrar ehf. gegn Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem sveitarfélagið var sýknað af öllum kröfum.

Dómsorð og dómsniðurstaða lögð fram til kynningar.

  1. Flothetta

Unnur Kristjánsdóttir frá Flothetta kemur inná fundinn með kynningu á starfsemi sinni. Flothetta leitast eftir því að fara með starfið inní Skeiðalaug og gera hana að miðstöð slökunarmeðferða á Íslandi. Flotmeðferð er djúpt og heilandi ferðalag þar sem þátttakendur eru leiddir af mýkt og öryggi inn í kyrrð og eftirgjöf í þyngdarleysi vatnsins. Í flotmeðferð er boðið upp á líkamsmiðaða meðhöndlun og nudd á meðan flotið er. Allt miðast þetta að því að næra og örva heilbrigt orkuflæði líkamans og losa út neikvæð áhrif streitu, sjá nánar á www.flothetta.is.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps þakkar fyrir góða kynningu. Sveitarstjóra falið að vinna áfram mögulegt samstarf við Flothettu með það að leiðarljósi að efla fjölbreytt heilsueflandi starf í Skeiðalaug.

 

  1. Styrkbeiðni frá Sjóðnum góða

Sjóðurinn góði er samstarfsverkefni Lionsklúbba, kvenfélaga, kirkjusókna, félagsþjónustunnar í Árnessýslu, deilda Rauðakrossins í Árnessýslu og Hjálparstarfs kirkjunnar. Hlutverk sjóðsins góða er að styrkja einstaklinga og fjölskyldur sem standa höllum fæti og eiga ekki fyrir nauðþurftum fyrir jólin.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að styrkja Sjóðinn góða um 50.000 kr. og fellur það innan heimilda núverandi fjárhagsáætlunar.

 

  1. Skólavist utan lögheimilissveitarfélags

Lögð fram beiðni frá skóla og frístundasviði Reykjavíkurborgar um skólavist í Þjórsárskóla fyrir barn með lögheimili í Reykjavík. Greitt er fyrir skólavistina samkvæmt viðmiðunarreglum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum að taka á móti barninu í Þjórsárskóla skólaárið 2022-2023.

  1. Umsagnarbeiðni vegna rekstarleyfis gistingar í flokk II-G íbúðir.

Lögð fram umsagnarbeiðni vegna umsóknar um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II – G Íbúðir

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemdir við umsókn um rekstur gististaðar í flokki II – G íbúðir.

 

  1. Fundargerð NOS 24.11.2022

Fundargerð NOS 24.11.2022 lögð fram.

Varðandi lið 1, staða Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings samþykkir sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps eftirfarandi bókun:

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir útgöngu Hveragerðisbæjar og Sveitarfélagsins Ölfuss úr Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs. Útgangan miðast við í síðasta lagi 1. mars 2023 og að öll aðildarsveitarfélög hafi komist að samkomulagi um eignir, skuldir og yfirfærslu á málum sem eru í vinnslu hjá Skóla- og velferðarþjónustu sem og öðru er leysa þarf úr fyrir útgöngu sveitarfélaganna.

Jafnframt samþykkir sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að framlengja skipunartíma Ásmundar Lárussonar í Skólaþjónustu- og velferðarnefnd Árnesþings til 1. mars 2023 sem og til vara Jóhönnu Valgeirsdóttur til sama tíma.
Fundargerð að öðru leyti lögð fram til kynningar.

  1. Fundargerð 249. fundar skipulagsnefndar

  1. Skeiðháholt land (L166517); umsókn um byggingarheimild; sumarbústaður – 2210079

Fyrir liggur umsókn Emils Þ. Guðmundssonar fyrir hönd Steinunnar Gunnlaugsdóttur með umboð landeigenda, móttekin 17.10.2022, um byggingarheimild fyrir 52 m2 sumarbústað á sumarbústaðalandinu Skeiðháholt land L166517 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

 

  1. Fjallaskálar í Flóa- og Skeiðamannaafrétti og Gnúpverjaafrétti; Aðalskipulagsbreyting – 2207018

Lögð fram tillaga vegna breytingar á Aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029. Fyrirhuguð breyting á aðalskipulagi felur í sér breytingu á skipulagi fjallaskála á Flóa- og Skeiðamannaafrétti og Gnúpverjaafrétti. Flóa- og Skeiðamannaafréttur telst vera milli Stóru-Laxár og Fossár að austanverðu og Gnúpverjaafréttar milli Fossár og Þjórsár. Svæðið er allt innan skipulagssvæðis Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Skálarnir eru skilgreindir í gildandi aðalskipulagi sem afþreyingar- og ferðamannasvæði, um er að ræða skálasvæði og fjallasel: AF16 Klettur (L166522), AF17 Hallarmúli (L178699), AF18 Sultarfit (L179883), AF19 Skeiðamannafit (L179888), AF20 Gljúfurleit (L166705), AF21 Bjarnalækjarbotnar (L166706), AF22 Tjarnarver (L166707) og AF23 Setrið (L166521). Markmiðið með aðalskipulagsbreytingunni er að fjölga gistiplássum í fjallaskálum í samræmi við stefnu gildandi aðalskipulags. Verið er að setja ramma utan um mannvirki á hverju svæði fyrir sig og uppbyggingu þeirra og viðhaldi til framtíðar. Vatnsverndarsvæði skálanna eru sett inn á uppdrátt aðalskipulags og einnig er heimild veitt fyrir minniháttar efnistöku vegna úrbóta á aðkomuvegum. Skipulagslýsing vegna breytingar var í kynningu 25. ágúst – 16. september.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum tillögu aðalskipulagsbreytingar til kynningar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

  1. Gljúfurleit skálasvæði; Gnúpverjaafréttur; Deiliskipulag – 2202085

Lögð er fram tillaga deiliskipulags sem tekur til skálasvæðisins Gljúfurleit á Gnúpverjaafrétt. Markmið deiliskipulagstillögunnar er að setja ramma utan um uppbyggingu svæðisins og setja skilmála um framtíðaruppbyggingu. Í deiliskipulaginu felst m.a. skilgreining tveggja byggingarreita, áningarhólfs og vatnsbóls ásamt verndarsvæði umhverfis það.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum deiliskipulagsbreytinguna til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

  1. Setrið fjallasel; Flóa- og Skeiðamannaafréttur; Deiliskipulag – 2202088

Lögð er fram tillaga deiliskipulags sem tekur til fjallaselsins Setursins á Flóa- og Gnúpverjaafrétt. Markmiðið með gerð þessa deiliskipulags er að setja ramma utan um uppbyggingu svæðisins og setja skilmála um framtíðaruppbyggingu. Í deiliskipulaginu felst m.a. skilgreining byggingarreits og vatnsbóls ásamt verndarsvæði umhverfis það.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum deiliskipulagsbreytinguna til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

  1. Tjarnarver fjallasel; Gnúpverjaafréttur; Deiliskipulag – 2202087

Lögð er fram tillaga deiliskipulags sem tekur til fjallaselsins Tjarnarvers á Gnúpverjaafrétt. Markmið deiliskipulagstillögunnar er að setja ramma utan um uppbyggingu svæðisins og setja skilmála um framtíðaruppbyggingu. Í deiliskipulaginu felst m.a. skilgreining tveggja byggingarreita, áningarhólfs og tillögu að fyrirhuguðu vatnsbóli.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum deiliskipulagsbreytinguna til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

  1. Bjarnalækjarbotnar fjallasel; Gnúpverjaafréttur; Deiliskipulag – 2202086

Lögð er fram tillaga deiliskipulags sem tekur til fjallaselsins Bjarnalækjarbotna á Gnúpverjaafrétt. Markmið deiliskipulagstillögunnar er að setja ramma utan um uppbyggingu svæðisins og setja skilmála um framtíðaruppbyggingu. Í deiliskipulaginu felst m.a. skilgreining tveggja byggingarreita og áningarhólfs.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum deiliskipulagsbreytinguna til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

  1. Skeiðamannafit L179888; Fjallasel; Deiliskipulag – 2205039

Lögð er fram tillaga deiliskipulags sem tekur til fjallaselsins Skeiðamannafit á Flóa- og Skeiðamannaafrétt. Markmið deiliskipulagstillögunnar er að setja ramma utan um uppbyggingu svæðisins og setja skilmála um framtíðaruppbyggingu. Í deiliskipulaginu felst m.a. skilgreining tveggja byggingarreita, áningarhólfs og vatnsbóls ásamt verndarsvæði umhverfis það.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum deiliskipulagsbreytinguna til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

  1. Sultarfit L179883; Fjallasel; Deiliskipulag – 2205038

Lögð er fram tillaga deiliskipulags sem tekur til fjallaselsins Sultarfits á Flóa- og Skeiðamannaafrétt. Markmið deiliskipulagstillögunnar er að setja ramma utan um uppbyggingu svæðisins og setja skilmála um framtíðaruppbyggingu. í deiliskipulaginu felst m.a. skilgreining byggingarreits, áningarhólfs og vatnsbóls ásamt verndarsvæði umhverfis það.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum deiliskipulagsbreytinguna til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

  1. Hallarmúli L178699; Fjallasel; Deiliskipulag – 2205037

Lögð er fram tillaga deiliskipulags sem tekur til fjallaselsins Hallarmúla á Flóa- og Skeiðamannaafrétt. Markmið deiliskipulagstillögunnar er að setja ramma utan um uppbyggingu svæðisins og setja skilmála um framtíðaruppbyggingu. Í deiliskipulaginu felst m.a. skilgreining byggingarreits, áningarhólfs og vatnsbóls ásamt verndarsvæði umhverfis það.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum deiliskipulagsbreytinguna til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

  1. Klettur L166522; Fjallasel; Deiliskipulag – 2205036

Lögð er fram tillaga deiliskipulags sem tekur til fjallaselsins Kletts á Flóa- og Skeiðamannaafrétt. Markmið deiliskipulagstillögunnar er að setja ramma utan um uppbyggingu svæðisins og setja skilmála um framtíðaruppbyggingu. Í deiliskipulaginu felst m.a. skilgreining tveggja byggingarreita, áningarhólfs og vatnsbóls ásamt verndarsvæði umhverfis það.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum deiliskipulagsbreytinguna til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Fundargerð 250. fundar skipulagsnefndar

  1. Álftröð (L222125); umsókn um byggingarleyfi; íbúðarhús með sambyggðum bílskúr og auka íbúð – 2211001

Fyrir liggur umsókn Ómars Péturssonar fyrir hönd B. Guðjónsdóttur ehf., móttekin 01.11.2022 um byggingarleyfi fyrir 244,6 m2 íbúðarhús með sambyggðum bílskúr og auka íbúð á landinu Álftröð (L222125) í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum að útgáfa byggingarleyfis verði samþykkt á grundvelli 3.mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar segir að við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

  1. Grandi; Votadæl L166643, Lóð 5 og lóð 7, Fjölgun lóða; Dsk.br. – 2211025

Lögð er fram umsókn frá Hrafnhildi Loftsdóttir er varðar breytingu á deiliskipulagi lóðar Granda, L166643 úr jörð Sandlækjar. Í breytingunni felst fjölgun lóða og byggingarreita innan svæðisins. Eftir breytingu er gert ráð fyrir 4 frístundalóðum á svæðinu þar sem heimilt verði að reisa frístundahús auk auka húss á lóð að 40 fm innan heildar nýtingarhlutfalls 0,03.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps telur framlagða umsókn ekki vera í samræmi við aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Svæðið er skilgreint sem landbúnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi. Skilmálar aðalskipulags er varðar byggingar á landbúnaðarsvæðum segja að þar sem 4 eða fleiri lóðir eru samliggjandi, án þess að tengjast rekstri viðkomandi jarðar, skuli afmarka landnotkun sérstaklega.

  1. Fundargerðir nefnda sveitarfélagsins

Fundargerð 3. fundar Skólanefndar lögð fram til kynningar

Fundargerð 1. fundar Loftslags- og Umhverfisnefndar lögð fram til kynningar

Fundargerð 1. fundar Veitunefndar lögð fram til kynningar

Fundargerð 2. fundar Afréttarmálafélags Gnúpverja lögð fram til kynningaræ

Fundargerð 3. fundar Afréttarmálafélags Gnúpverja lögð fram til kynningar

Fundargerð 4. fundar Afréttarmálafélags Gnúpverja lögð fram til kynningar

  1. Samþykkt af fundi 60plús um dvalarheimili

Samþykkt af fundi 60plús um dvalarheimili lögð fram til kynningar

  1. Fundargerð 314. fundar Sorpstöðvar Suðurlands

Fundargerð lögð fram til kynningar

  1. Fundargerð 315. fundar stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands

Fundargerð lögð fram til kynningar

  1. Fundargerð 915. fundar stjórnar Samband íslenskra Sveitarfélaga

Fundargerð lögð fram til kynningar

  1. Aðalfundargerð Vottunarstofunnar Túns

Fundargerð aðalfundar 25.8.2022 lögð fram til kynningar

  1. Fundargerð og önnur gögn frá Héraðsskjalasafni Árnesinga

Minnisblað rafræn langtímavarðveisla, samstarfsyfirlýsing héraðsskjalasafna og ársskýrsla ´ Héraðsskjalasafns Árnesinga lagt fram til kynningar

  1. Fundargerð aðalfundar Sorpstöðvar Suðurlands

Fundargerð aðalfundar SOS 2022 lögð fram til kynningar

  1. Fundargerð 21. fundar svæðisskipulagsnefndar Suðurhálendis

Fundargerð 21. fundar lögð fram til kynningar

  1. Fundargerð 96. fundar stjórnar Umhverfis- og tæknissviðs

Fundargerð lögð fram til kynningar

  1. Fundargerð 222. fundar Heilbrigðiseftirlit Suðurlands

Fundargerð lögð fram til kynningar

  1. Fundargerð aðalfundar Skóla- og Velferðarþjónustu Árnesþings- 24.11.2022

Fundargerð aðalfundar og árskýrsla SVÁ lögð fram til kynningar

  1. Fundargerð 589. fundar stjórnar Sambands sunnlenskra sveitarfélaga

Fundargerð lögð fram til kynningar

Fundi slitið kl. 12.40. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 21. desember kl 09:00 í Árnesi.