Umhverfisnefnd

Númer fundar: 

14

Dagssetning fundar: 

Miðvikudagur, 1. febrúar 2017

Tími fundar: 

20:30

Mættir:: 

Anna María Flyengring,  Páll Árnason, Sigþrúður Jónsdóttir

Fundargerð: 

                   Dagskrá:

1.       Kynning á lýsingu vegna áforma um deiliskipulag fyrir Hvammsvirkjun.

Umhverfisnefnd samþykkt meðfylgjandi bókun.

Eftir skoðun á lýsingu vegna deiliskipulags, sem auglýst er á heimasíðu Skeiða-og Gnúpverjahrepps, gerum við í umhverfisnefnd Skeiða-og Gnúpverjahrepps eftirfarandi athugasemdir :

Fyrst kemur kafli úr lýsingunni :

“2.1 Umhverfi og aðstæður á skipulagssvæðinu.

Landslag á virkjunarsvæðinu hefur í gegnum tíðina mótast af ís, eldgosum og ekki síst vatnsföllum þar sem Þjórsá spilar stórt hlutverk. Landið er fremur flatt þó þar séu nokkur lág fjöll eða ásar. Vestan Þjórsár rísa Hagafjall og Núpsfjall norðan svæðisins og austan ár er Skarðsfjall. Farvegur Þjórsár er nokkuð brattur á þessu svæði og eru flúðir í ánni við Ölmóðsey. Landið er nokkuð vel gróið og gróður gróskumikill (Kristbjörn Egilsson ofl.,2002). Víða austan árinnar má þó sjá áberandi merki um uppblástur sem geisaði í ofanverðri Landsveit, þar sem fjölmargar jarðir fóru í eyði vegna hans. Núverandi landnýting á svæðinu er nær eingöngu tengd landbúnaði.

Allstór hluti byggðar í Árnes- og Rangárvallasýslum er á Þjórsárhrauni sem rann fyrir tæðum 9000 árum. Þrír fossar eru í Þjórsá neðan fyrirhugaðrar virkjunar, þ.e. Búði, Hestfoss og Urriðafoss og njóta þeir verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Hvammsvirkjun mun ekki hafa áhrif á rennsli í þeim, umfram það sem núverandi virkjanir hafa á rennsli árinnar.“  ¹

Í þessum kafla er þess réttilega getið að land sé nokkuð vel gróið og gróður gróskumikill. Þar af leiðir að um gróðureyðingu verður að ræða ef af áætlaðri virkjun verður og Hagalón verður fyllt.

Það er hins vegar rangt með farið að núverandi landnýting sé nær eingöngu tengd landbúnaði, svæðið er einnig notað til útivistar, bæði af heimamönnum og ferðafólki.

Í lögum um náttúruvernd nr. 60 frá 2013 :

“Markmið laganna skv. 1. gr. er að vernda til framtíðar fjölbreytni íslenskrar náttúru, þar á meðal líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni og fjölbreytni landslags. Þau eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru á eigin forsendum og verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt og einnig stuðla að endurheimt raskaðra vistkerfa og auknu þoli íslenskra vistkerfa gegn náttúruhamförum og hnattrænum umhverfisbreytingum. Lögin miða jafnframt að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlinda og annarra náttúrugæða.

Skv. 61. gr laganna njóta tiltekin vistkerfi og jarðminjar sérstakrar verndar m.a. sérstæðir eða vistfræðilega mikilvægir birkiskógar og leifar þeirra, votlendi 20.000m² að flatarmáli og eldvörp, gervigígar og hraunhellar sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma.

Samkvæmt 62. gr. skal við vatnsnýtingu og framkvæmdir í eða við vötn leitast við að viðhalda náttúrulegum bakkagróðri við ár og stöðuvötn og haga mannvirkjum og framkvæmdum þannig að sem minnst röskun verði á bökkum og næsta umhverfi vatnsins.“ ²

Í lögunum kemur skýrt fram að vernda skuli .... „sérstæða eða vistfræðilega mikilvæga birkiskóga og einnig að leitast skuli við að viðhalda náttúrulegum bakkagróðri við ár og stöðuvötn“.

Við í umhverfisnefnd höfum þungar áhyggjur af Viðey, sem er friðlýst eyja í Þjórsá, með yfir 80 tegundir háplantna og birkið hefur verið einangrað um aldir og tvær tegundir plantna sem þar hafa fundist eru mjög sjaldgæfar. Náttúra Viðeyjar er í hættu þótt til svokallaðra mótvægisaðgerða verði gripið í formi mannheldrar girðingar. Girðingar fara illa á vetrum og þurfa stöðugt viðhald, auk þess sem þær skemma verulega fagra ásýnd þessa gróðursæla reits. Vatnsrennsli við áætlaða virkjun verður það lítið að ekki verður unnt að vernda bakkana og mikil hætta verður á foki, bæði úr árfarveginum og haugsetningargörðum.

Bakkar árinnar frá Viðey og niður að Þjórsárholti eru vel grónir en á þeim kafla er gert ráð fyrir að veita vatni úr farvegi og eykst þá hætta á uppblæstri.

Ekki er öruggt að lífríki í ánni verði óskaddað verði af framkvæmdum og muni ekki hafa slæm áhrif laxastofninn. Þó að búsvæði laxa sem ganga fyrir ofan áætlaða Hvammsvirkjun hafi orðið til vegna manngerðra áhrifa þá er samt sem áður um stofn villtra laxa að ræða. Í ljósi þess að villtum löxum hefur fækkað gríðarlega í heiminum öllum, ber Íslendingum að standa vörð um þá laxastofna sem eftir eru hér á landi. Íslensk stjórnvöld eru skuldbundin af alþjóðlegum sáttmálum um að leyfa ekki framkvæmdir sem setja lífríkið í stórfellda hættu. Sú tækni sem virkjunaraðili hefur kynnt er til að fleyta seiðum í gegnum túrbínurnar er ekki trygg og í raun er yrði um tilraun að ræða. Í þessu er falin mikil áhætta.

Þess má geta að fuglalíf við neðri hluta Þjórsár er í hættu verði búsvæðum raskað. Á áreyrum Þjórsár er heimsklassa þéttleiki spóa og þar eru mikilvægar varpstöðvar mófugla.

Við hvetjum sveitarstjórn Skeiða-og Gnúpverjahrepps að fara sér hægt við að setja Hvammsvirkjun inn á deiliskipulag í ljósi þess að verið er að skoða og endurvinna aðalskipulag, á meðan er ekki ásættanlegt að samþykkja deiliskipulag, sem varðar virkjun sem hafa mun gríðarleg áhrif á umhverfi samfélag.

Umhverfisnefnd

Anna María Flygenring formaður

Sigþrúður Jónsdóttir

Páll Ingi Árnason

2.       Staða á friðlýsingu Gjárinnar. Umfæðu frestað.

3.       Upplýsingar um sorpflokkun. Rætt. Koma þarf þeim upplýsingum til fólks.Formaður kannar hvort hægt sé að láta upplýsingar fylgja með næsta Fréttabréfi.

Fundi slitið.