Tenging nýrrar aflstöðvar við Búrfell undirbúin

Sunnudagur, 6. maí 2018
Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets, Hörður forstjóri Landsvirkjunar og KT

Landsnet: Föstudaginn 4. maí setti Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets endurbætt tengivirki fyrirtækisins við Búrfellsvirkjun í gang að viðstöddum hópi gesta. Með því var Landsnet að tengja inn á flutningskerfi Íslands nýja vatnsaflsvirkjun við Búrfell. Landsvirkjun er að ljúka við byggingu hennar. Verður hún gangsett seinnipartinn í júní. Ekki var þörf á að byggja nýtt tengivirki, það sem fyrir var til staðar í Búrfelli dugar til þess brúks en stjórnbúnaður var endurnýjaður engu að síður. Umrætt tengivirki er í raun helsta þungamiðja flutningskerfis raforku í landinu. Rafmagnið sem verður til í virkjunum í Þjórsá, alls um 400 MW, fer þar inn. Þaðan fer það út á fimm háspennulínur. Margir aðilar komu að þessu verkefni sem var að sögn Guðmundar býsna flókið viðfangsefni. Mikið lán var með starfsmönnum verkefnisins og blessunarlega urðu engin slys á fólki. Tíma- og kostnaðaráætlun stóðst. Fyrir gangsetninguna var haldin kynning á verkefninu í félagsheimilinu í Árnesi.